Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (UUA) hefur hafnað kröfu hóps eigenda og íbúa tólf eigna við Einarsnes og Gnitanes í Skerjafirði um að ákvörðun borgarstjórnar um nýtt deiliskipulag fyrir Nýja-Skerjafjörð verði felld úr gildi.
Kærendurnir bentu m.a. á að með fyrirhugaðri uppbyggingu mundi umferð um Einarsnes aukast mikið með nýrri byggð og jafnvel þrefaldast og að hávaði vegna aukinnar umferðar yrði að öllum líkindum yfir hámarksviðmiðum. Einnig væri nauðsynlegt að íbúar fengju fullnægjandi kynningu áður en uppbygging hverfisins hæfist. Ekki hefði verið komið til móts við ábendingar um slysahættu sem fylgdi því að staðsetja fjölfarinn hjólreiðastíg við innkeyrslur margra íbúðarhúsa við Einarsnes.
Borgaryfirvöld bentu m.a. á að deiliskipulagið uppfyllti öll skilyrði um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir vegna hávaða og tillögur um aðgerðir vegna aukinnar umferðar og mótvægisaðgerðir væru skýrar og raunhæfar.
Úrskurðarnefndin bendir á að við gerð deiliskipulags sé einungs verið að skipuleggja það svæði sem fellur innan marka þess. Fram komi að fara eigi í vinnu við að breyta núgildandi deiliskipulagi bæði Skildinganess og Einarsness þar sem hljóðvist vegna umferðar yrði tekin fyrir.