„Ég hef staðið vaktina hér í 28 ár, nánast upp á hvern einasta dag. Það er komin smá þreyta í karlinn,“ segir Hreiðar Karlsson sem ásamt konu sinni, Elínu Gestsdóttur, hefur rekið Hundahótelið á Leirum á Kjalarnesi. Þau lokuðu hótelinu nú um mánaðamótin.
Hreiðar segist hafa orðið var við að lokunin kemur sér illa fyrir marga. Hann hafi taugar til eigendanna enda hafi þau verið að gæta þriðju kynslóðar hunda hjá sumum fjölskyldum.
Hreiðar segist ekki ætla að leigja aðstöðuna enda yrði sami átroðningur vegna þess og að hafa reksturinn sjálf með höndum. Annað hundahótel er í Reykjanesbæ og síðan hefur að hans sögn aukist mikið að fólk gæti hunda í heimahúsum.
Hann segir að gestir hafi komið á hundahótelið allt árið, ekki aðeins vegna sumarleyfa eigendanna, og þeir séu frá einum degi og upp í einhverja mánuði í einu. Ástæðurnar geti verið margvíslegar.
„Ég sé hvað við getum gert. Við erum með opið fyrir óskilahunda fram í júní samkvæmt samningum við sveitarfélögin en annars er lokað. Mér sýnist svo að við þurfum að hafa sumarþjónustu fyrir fleiri hundruð gesti,“ segir Hreiðar.
„Ég vil fyrir hönd okkar hjónanna þakka ferfættum viðskiptavinum og eigendum þeirra allar ánægjustundirnar þessi ár og óska þeim alls hins besta,“ segir í kveðjupistli sem Hreiðar skrifaði inn á vef Hundahótelsins þegar hann lokaði.