Nöfn umsækjenda um störf sóknarpresta í Víkurprestakalli í Mýrdal og Skálholtsprestakalli voru birt á vef þjóðkirkjunnar um miðja síðustu viku.
Um starf sóknarprests í Skálholtsprestakalli sóttu fimm: Séra Arnaldur Arnold Bárðarson, Árni Þór Þórsson guðfræðingur, Bryndís Böðvarsdóttir guðfræðingur, séra Dagur Fannar Magnússon og séra Ingibjörg Jóhannsdóttir.
Séra Arnaldur Arnold, prestur á Eyrarbakka, og séra Ingibjörg eru hjón og segja þeir sem best þekkja til að það sé einsdæmi í kirkjusögu Íslands að hjón sæki um sama prestsembættið.
Valnefnd í prestakallinu var snögg til og ákvað að kalla séra Dag Fannar til starfa í Skálholti.
Biskup Íslands hefur staðfest ráðningu hans. Dagur Fannar fæddist 10. júlí 1992 og er því 29 ára að aldri. Hann hefur verið prestur í Heydölum í Breiðdal í rúm tvö ár. Eiginkona hans er Þóra Gréta Pálmarsdóttir, foreldrafræðingur og uppeldisráðgjafi að mennt, og eiga þau þrjú börn.
Skálholtsprestakall í Suðurprófastsdæmi er á samstarfssvæði með Hrunaprestakalli. Það samanstendur af átta sóknum þar sem eru 12 kirkjur.