Lögregla segir fréttaflutning rangan

Frá leit björgunarsveita að flugvélinni.
Frá leit björgunarsveita að flugvélinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi vísar þeim fregnum frá sem röngum, að staðsetningargögn úr farsíma í tengslum við flugslysið á Þingvallavatni hafi ekki borist stjórnendum aðgerða í tíma.

Frétta­blaðið grein­di frá því að klukk­an 19 á fimmtu­dags­kvöld hefði það fengið mynd úr leitar­for­rit­inu Find My iP­ho­ne, sem sýnt hafi rakn­ingu á farsíma Banda­ríkja­manns­ins Josh Neum­an, eins þeirra sem var um borð í vél­inni.

Í umfjöllun blaðsins sagði að stjórnendur leitarinnar hefðu ekki fengið þau gögn fyrr en á föstudeginum.

Fyrsta vísbending skráð 17.51

„Í sameiginlegum aðgerðagrunni björgunarsveita og almannavarna þ.m.t. LHG, lögreglu, sjúkraflutninga, Isavía o.fl. er fyrsta vísbending úr farsíma skráð þann 3. febrúar kl. 17.51,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Klukkan 15.40 þennan sama dag hafi legið fyrir í sama grunni, eftir gögnum Isavia, að flugleiðin hafi verið um Grímsnesið.

Leit fyrst beint að suðurhluta vatnsins

„Leit með sérstakri vél frá danska hernum var fyrst beint að Grímsnesi og suðurhluta Þingvallavatns. Kl. 17.40 er þyrla LHG með menn úr séraðgerðasveit í sérstakri leit yfir og í Ölfusvatnsvík.

Formleg staðfesting á símagögnum, sem þegar höfðu verið notuð við skipulagningu leitaraðgerða, fékkst ekki fyrr en síðar frá þar til bærum yfirvöldum erlendis,“ segir í tilkynningunni.

„Varðandi fréttir um að staðsetning úr farsíma hafi ekki borist stjórnendum aðgerða í tíma er þeim einfaldlega vísað frá sem röngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert