Skýtur föstum skotum að Sólveigu Önnu

Agnieszka Ewa Ziółkowska formaður Eflingar.
Agnieszka Ewa Ziółkowska formaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Núverandi formaður Eflingar segir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formann félagsins, ekki réttu manneskjuna til að leiða verkalýðsbaráttuna. Telur hún Sólveigu Önnu vera málsvara sundrungar sem hafi einangrað sig frá flestum þáttum starfseminnar og að hún hlusti ekki á raddir annarra.

Þetta kemur fram í pistli Agnieszku Ewu Ziólkowsku, formanns Eflingar, sem birtist í dag á Vísi.

Pistillinn er skrifaður til stuðnings Ólöfu Helgu Adolfsdóttur sem er nú varaformaður Eflingar.

Sólveig Anna, Ólöf Helga og Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, gefa öll kost á sér í embætti formanns en kosning fer fram eftir viku.

Studdi Sólveigu upphaflega

Agnieszka tók við embættinu síðasta haust í kjölfar þess að Sólveig Anna steig til hliðar sem formaður í skugga ásakana starfsmanna. Hafði Agnieszka fram að því verið varaformaður verkalýðsfélagsins.

Agnieszka kveðst upphaflega hafa verið mikill stuðningsmaður Sólveigar og hennar baráttu og er hún þakklát störfum hennar í þágu verkalýðshreyfingunnar.

Aftur á móti geti forysta Sólveigar leitt til sundrungar verkalýðsforystunnar og myndi það veikja stöðu félagsmanna þeirra og alls verkafólks í landinu. 

Blandar ekki geði við starfsfólk

„Þrátt fyrir að baráttuorð hennar tali um mikilvægi samstöðu þá sýna gjörðir hennar að sú samstaða sem hún kallar eftir er í raun aðeins blind hollusta og jafnvel það dugar varla til því hún hefur einangrað sig frá flestum þáttum starfsseminnar og blandar nær aldrei geði við fólkið á gólfinu sem er helst í sambandi við félagsfólk og þekkir helst þann vanda sem verkalýðsfélögin glíma við,“ segir í pistlinum.

Bendir hún jafnframt á að ef stjórnandi á öðrum vinnustað myndi hegða sér með slíkum hætti yrði það litið alvarlegum augum.

Kostað félagið fjárhæðir og mannauð

Þá vekur Agnieszka jafnframt athygli á því að stjórnarhættir Sólveigar og Viðars Þorsteinssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, hafi kostað verkalýðsfélagið bæði gífurlegar fjárhæðir og mikinn mannauð á þeim þremur árum sem þau voru við stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert