Ljóst er að beint og óbeint tjón sem atvinnufyrirtæki á Seyðisfirði hafa orðið fyrir í kjölfar skriðufallanna í desember árið 2020 hleypur á hundruðum milljóna króna, líklega milljörðum, og hefur aðeins lítill hluti þess fengist bættur. Þetta kemur fram í umsögn verkefnisstjórnar Seyðisfjarðarverkefnisins um þingsályktunartillögu sem Líneik Anna Sævarsdóttir og 17 aðrir þingmenn hafa lagt fram á Alþingi þar sem lagt er til að gerð verði úttekt á tryggingavernd í kjölfar náttúruhamfara.
Í umsögninni sem Gauti Jóhannesson, formaður verkefnisstjórnarinnar, sendir fyrir hönd stjórnarinnar er tillögunni fagnað en af umsögn hans má ráða að víða er pottur brotinn í meðferð tjónamála í kjölfar náttúruhamfara.
Vakin er athygli á að forgangsröðun Ofanflóðasjóðs hafi eingöngu beinst að íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að eigendur atvinnuhúsnæðis greiði árlegt ofanflóðagjald og þeir sem eiga atvinnuhúsnæði á hættusvæði fái enga lausn sinna mála þar sem eingöngu sé um uppkaup á íbúðarhúsnæði að ræða „og stjórnvöld gera ekki ráð fyrir að verja atvinnusvæði á hættusvæðum í fyrirsjáanlegri framtíð“.
Enginn greinarmunur sé þó gerður á íbúða- og atvinnuhúsnæði í lögum um ofanflóðavarnir „og því má í raun segja að stjórnvöld séu ekki að sinna lögboðnu hlutverki sínu er snýr að atvinnulífi,“ segir þar.
Jafnframt segir í umsögninni að mörg dæmi séu um að atvinnurekendur standi frammi fyrir beinu fjárhagstjóni þar sem hvorki þeir né starfsmenn treysti sér til að starfa í húsnæði á hættusvæði og slíkar eignir séu verðlausar þar sem enginn vilji kaupa þær.
Í umfjöllun um tryggingamál kemur fram að nokkur atvinnufyrirtæki hafi staðið frammi fyrir miklu tjóni sem ekki fáist að fullu bætt frá tryggingafélögum, „jafnvel þótt eigendur fyrirtækjanna hafi talið sig fulltryggða. Ástæður þessa eru margvíslegar. Hér er fyrst og fremst um óbilgirni við túlkun á skilmálum að ræða en einnig má nefna kröfur um 10% sjáIfsábyrgð, sem margir töldu óréttlátt þar sem það var ekki í þeirra valdi að koma í veg fyrir hamfarir. Þá var tekist á um sönnunarbyrði vegna foktjóna í kjölfar hamfaranna, en í flestum tilvikum var ómögulegt að sanna hvaðan skriðubrakið var, sem fauk á húseignir, og varð á endanum úr að Náttúruhamfaratrygging varð að taka það tjón á sig,“ segir í umsögninni.
Auk þessa fáist rekstrartjón ekki bætt þar sem bætur fyrir slíkt tjón falli niður við náttúruhamfarir. Tjón sem varðar t.d. matvæli hlaupi á tugum milljóna vegna röskunar á starfsemi eftir flóðið og að vegasamband rofnaði, sem varð til þess að mikið magn matvæla eyðilagðist.
Bent er á að búnaðardeild Bjargráðasjóðs var lögð niður 2017 sem leitt hafi til þess að rekstrartjón fáist ekki lengur bætt, s.s. við mjólkuframleiðslu. Hella þurfti niður þúsundum lítra af mjólk á býli í Seyðisfirði sem einangraðist vegna skrifðufalla. Öllum beiðnum bænda um bætur hafi verið hafnað.