Fresta þurfti flutningum þess búnaðar sem setja þarf upp við Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni til þess að endurheimta líkamsleifar þeirra sem fórust í flugslysinu til dagsins í dag vegna slæmrar færðar á vettvangi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Suðurlandi sendi frá sér í gær, en þar segir einnig að í dag verði ruddur slóði að aðstöðuplani.
Segir í tilkynningunni að lögregluvakt verði á vettvangi frá því uppsetning hefst og þar til aðgerðum er lokið. Veðurspá gerði ráð fyrir norðan blæstri í morgunsárið en hægari með kvöldinu og hæglætisveðri á morgun og fram á föstudag en hörkufrosti.
Þá segir í tilkynningunni að í lok dagsins í dag þurfi allur búnaður að vera kominn á staðinn og uppsetningu þarf að ljúka fyrir morgundaginn. „Ísröst er byrjuð að myndast með bökkum vatnsins og þarf að finna hentugan stað til „sjósetningar“ á prömmum sem notaðir verða úti á vatninu,“ kemur fram í tilkynningunni.
Fram kemur í tilkynningunni að auk daglegs stöðufundar með þeim sem koma að aðgerðinni var fundað með sérfræðingum í umhverfismálum og Brunavörnum Árnessýslu vegna hættu á mengun við aðgerðirnar. Einnig var farið yfir sameiginlega rannsóknaráætlun lögreglu og RNSA á flakinu og nauðsynlegar aðgerðir tímasettar í ferlinu með stjórnendum kafara.
Sveitarstjóra Grímsnes- og Grafningshrepps annars vegar og þjóðgarðsverði hins vegar hefur verið gert viðvart um fyrirhugaðar aðgerðir og umfang þeirra.
„Mögulegt er að umfang aðgerðanna leiði til tjóns á lággróðri og annarra ummerkja á bakka vatnsins einkum þar sem þungir prammar verða settir út. Lagfæringar á því þurfa að bíða vors en reynt verður af fremsta megni að komast hjá því að eftir verði nokkur ummerki um aðgerðirnar,“ segir í tilkynningunni.