Haldið verður upp á dag íslenska táknmálsins á föstudaginn næstkomandi, 11. febrúar. Í tilefni dagsins hefur verið blásið til ýmissa viðburða á vegum Borgarbókasafnsins, Samtakanna 78 og Málnefndar um íslenskt tungumál.
Þetta kemur fram í tilkynningu Málnefndar um íslenskt táknmál.
Á morgun verður þrívítt samtal flutt á Torginu sem ber heitið Viltu sjá sögu?. Þar verða meðal annars fluttar gamansögur, barnasögur og sannar sögur.
„Þegar kemur að frásögnum er sögumaðurinn í senn höfundur, flytjandi og listamaður enda getur hann tekið á sig mynd hinna ólíklegustu fyrirbæra eins og dæmin sanna. Sögurnar lifna við í flutningi sögumanns sem hefur gott vald á táknmáli og nýtir hið sjónræna, þrívíða mál til hins ýtrasta og segir sögur af tyggjói, hákarli, hrút eða símbréfi,“ segir í tilkynningunni.
Þá verður í fyrsta sinn efnt til samkeppni um hýr tákn á vegum Samtakanna 78 og Málnefndar um íslenskt táknmál. Samtökin 78 hafa reglulega staðið fyrir nýyrðasamkeppni fyrir hýryrði en í þetta sinn verður sjónum beint að öðru opinberu tungumáli á Íslandi, táknmálinu.
Leitað verður að táknum fyrir fjögur hinsegin orð: eikynhneigð, kvár, stálp, og kynsegin.
Táknin sem urðu fyrir valinu verða kynnt á föstudag eða á degi íslenska táknmálsins. Dómnefnd skipa fulltrúar úr döff samfélaginu, Málnefnd um íslenskt táknmál og Samtökunum 78.