Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot, stórfelldar ærumeiðingar og stórfellt brot í nánu sambandi. Dreifði maðurinn miklum fjölda mynda og myndbanda af fyrrverandi eiginkonu sinni og barnsmóður m.a. til fjölskyldu konunnar, vinnufélaga og vina. Þá setti hann jafnframt upp heimasíðu þar sem myndirnar var að finna og deildi tengli á síðuna í athugasemdakerfi fréttamiðils og í Facebook-hóp sem var með um 40 þúsund notendur.
Málið er mjög umfangsmikið, en ákæra málsins er í 136 liðum. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að litið sé til mikils fjölda brota og að „brotin eru alvarleg og gróf og með þeim sýndi hann brotaþola fullkomið virðingarleysi og rauf með grófum hætti trúnað gagnvart henni“. Jafnframt metur dómurinn það svo að einstaklega vítaverðar hvatir hafi legið að baki verknaði mannsins og er hann ekki sagður eiga sér neinar málsbætur.
Maðurinn og konan kynntust árið 2005 í gegnum spjall á netinu. Hún bjó þá erlendis og fór hann og heimsótti hana. Stuttu síðar flutti hún til Íslands og giftu þau sig. Seinna skildu þau, en maðurinn bjó þó að stórum hluta áfram á heimili hennar.
Í dóminum kemur fram að konan segist hafa neyðst til að leyfa manninum að gista á heimili sínu árið 2018, en í lok ársins 2018 og byrjun 2019 hafi hann farið að senda henni hótanir og ljót skilaboð. Hún hafi ítrekað beðið manninn að fara og að lokum, eftir að upp úr sauð einn daginn, hafi hún kallað eftir aðstoð lögreglu og maðurinn þá farið af heimilinu.
Í kjölfarið fengu vinir hennar og fjölskylda sendar kynferðislegar myndir af henni. Jafnframt hafi myndskeið verið sett á Youtube og myndir á aðrar síður. Jafnframt var stofnaður Facebook-aðgangur í hennar nafni sem sendi vinum hennar vinabeiðni og myndirnar.
Í dóminum kemur jafnframt fram að nektarmyndir af konunni hafi verið sendar á 237 viðtakendur, en um var að ræða samtals 140 myndir. Meðal annars fengu 88 samstarfsmenn konunnar sendar myndirnar í tölvupósti. Eins og fyrr segir var stofnuð heimasíða með myndunum, en tengli í síðuna var dreift á stórri Facebook-síðu með tæplega 40 þúsund notendur. Þá var tenglinum einnig dreift í athugasemd á innlendri fréttasíðu.
Í fjölmörgum tilfellum þar sem myndir voru birtar, eða skilaboð send á samfélagsmiðlum eða tölvupósti var notast við erlendar þjónustur sem gera erfitt að rekja spor viðkomandi. Hins vegar var í tilfelli Facebook-hópsins og fréttasíðunnar notast við aðgang með nafni mannsins. Þá segir í dóminum að ákæruvaldið hafi sýnt fram á augljós tengsl á milli þessara sendinga og að það hafi verið tengt við manninn.
Jafnframt er talið hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi einn haft myndirnar í fórum sínum, jafnvel þótt konan hafi tekið hluta myndanna sjálf og sent manninum áður en hún fluttist til landsins. Sagðist hún sjálf hafa eytt myndunum og að maðurinn hafi lofað að eyða þeim.
Maðurinn neitaði alfarið sök í málinu og sagðist ekkert kannast við síðuna þar sem myndirnar hefðu verið settar inn eða fjölda tölvupóstfanga sem hefðu verið notuð til að senda myndirnar á vini og fjölskyldu konunnar.
Þá er haft eftir manninum í dóminum að hann hafi áður unnið við tölvur, en árið 2015 hafi lögreglan komið og „hreinsað út“ allan tölvubúnað hjá manninum og í kjölfarið hafi hann ekkert unnið við tölvur og sagði hann tölvur hræða sig í dag.
Í niðurstöðu dómsins segir að þegar litið sé heildstætt til myndefnisins og þeirra orða sem höfð eru eftir manninum sé samræmið augljóst, en myndirnar sýna konuna á kynferðislegan hátt og orðanotkunin er niðrandi í hennar garð. Þá sé ákveðið samræmi á milli innihalds þeirra sendinga sem maðurinn neitar fyrir og þeirra sem hann viðurkenndi að hafa sent, en telur þó ekki vera refsiverðar. Þá segir í dóminum að ljóst sé að sá sem dreifði myndunum hafi þekkt líf hennar vel og þá einnig fortíð hennar og það sem var að gerast í lífi hennar.
Maðurinn var handtekinn í Finnlandi í apríl 2019 og tæplega mánuði síðar framseldur til Íslands. Vakin er athygli á því í dóminum að eftir að maðurinn var handtekinn hafi dreifing myndanna stoppað.
Framburður konunnar er sagður stöðugur. Það sama á við um stóran hluta framburðar mannsins, en þó séu þar ósamræmi og að hann hafi breytt framburði frá skýrslutöku hjá lögreglu og svo í dómsal. Hins vegar segir í dóminum að skýringar mannsins um að konan hafi sjálf dreift myndunum sé fjarstæðukenndar.
„Þegar litið er heildstætt til málsatvika er það mat dómsins, með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola, sem fær stuðning í framlögðum gögnum og þá sérstaklega þeim sem rakin hafa verið hér að framan, að sannað sé þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem þar er rakin,“ segir í dóminum.
Er hann fundinn sekur um flest alla ákæruliði, ef frá er talið að hann er sýknaður af því að brot hans í hluta ákæruliðanna falli undir 218. gr b í almennum hegningarlögum, en það er vegna þess að dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að háttsemi hans falli undir að senda myndirnar, en ekki hótunum um að senda þær.