„Hlíðin bara hrundi allt í einu,eins og fjallið hefði rifnað. Þetta var rosalegt að sjá,“ segir Henrik Jóhannsson vélsleðamaður en litlu mátti muna sl. sunnudag á Lyngdalsheiði að snjóflóð félli á félaga hans, Braga Kristjánsson.
Höfðu þeir ásamt Braga Hlífari Guðbjörnssyni verið á ferð á sleðum sínum upp með svonefndu Hringleikahúsi, sem er eftirsótt svæði hjá sleðamönnum. Henrik hafði verið þarna uppi í hlíðinni skömmu á undan Braga Kristjánssyni, sem varð að gefa hressilega í til að lenda ekki undir flóðinu.
Veður var gott á þessum slóðum og því margir sleðar á ferð um Lyngdalsheiði. Dæmi eru um að flóð hafi fallið þarna áður. Í lok janúar árið 2016 setti vélsleði af stað flekaflóð sem lenti á og gróf þrjá menn og sleða þeirra. Allir björguðust þá ómeiddir og sleðarnir lítt skemmdir.
Að sögn Henriks var spýjan sl. sunnudag sæmilega stór, allt að 100 metra breið og nokkurra metra djúp.
„Við megum teljast heppnir að hafa ekki lent í flóðinu. Það var greinilega mikill klaki undir snjónum og hengjan brotnað af þeim sökum,“ segir Henrik, sem vildi að lokum brýna fyrir sleðamönnum að hafa viðeigandi öryggisbúnað meðferðis og ekki síður að kunna á hann ef svona aðstæður koma upp. Einnig sé mikilvægt að hafa sótt námskeið til að geta brugðist rétt við flóði eða öðrum óvæntum atvikum. Hafa þeir félagar allir sótt slík námskeið.