Sjálfstýrt djúpfar frá Teledyne Gavia sannaði gildi sitt við leit á botni Þingvallavatns að týndu flugvélinni og þeim sem þar voru um borð. Það sem leitað var að fannst með tækni sem var þróuð hér.
„Við notuðum sjálfstýrt Gavia-djúpfar við leitina,“ sagði Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia í Kópavogi. „Við forritum hvert verkefni fyrir kafbátinn. Svo gerir hann sitt án þess að við séum með neina áþreifanlega tengingu, kapal eða annað, við hann.“
Verksmiðja Teledyne Gavia smíðar nú þrjár tegundir af sjálfstýrðum kafbátum. Fyrst er að telja upprunalega bátinn Gavia sem heitir eftir Gavia immer, latnesku heiti himbrima sem heitir „Great Northern Diver“ á ensku eða mikli norræni kafarinn. Gavia-báturinn er 60-100 kíló eftir búnaði og getur kafað niður á 1.000 metra dýpi. Með einni rafhlöðu getur hann verið í um átta klukkustundir í kafi en allt upp í 16 tíma með fleiri rafhlöðum.
Miðstærðin heitir Osprey (gjóður) eftir fuglategund. Frumgerðin er tilbúin og Osprey að fara í sölu. Hann byggist á sömu hugmynd og Gavia en er stærri og getur kafað niður á 2.000 metra dýpi. Osprey getur borið stærri skynjara og tæki, stærri rafhlöður og verið lengur úti. Hann er 150 til 400 kíló eftir búnaði. Með einni rafhlöðu getur hann verið 12-14 stundir í köfun en 24 stundir með tveimur.
Stærsti báturinn heitir Sea Raptor (sjávarránfugl) og getur kafað niður á 6.000 metra dýpi. Hann er frá 1-1,6 tonn að þyngd eftir útfærslu búnaðar. Sea Raptor getur verið samfellt 45 klukkustundir neðansjávar með einni rafhlöðu.
Hjá Teledyne Gavia í Kópavogi starfa 25 manns. Auk þess vinnur fyrirtækið mikið með íslenskum vélsmiðjum sem smíða ýmsa hluti í bátana. „Við erum hluti af ameríska fyrirtækinu Teledyne Technologies og söludeildir og stoðdeildir okkar eru erlendis. Þannig erum við með sölumenn í öllum heimsálfum,“sagði Stefán. „Við seljum djúpförin út um allan heim. Nýlega seldum við til nýs stórs viðskiptavinar í Bandaríkjunum. Eins vorum við að selja djúpfar til Noregs sem er í frásögur færandi vegna þess að helsti keppinautur okkar er í Noregi!“
Stefán sagði að ákveðið hefði verið að nota Gavia-djúpfar við leitina í Þingvallavatni. Við þær aðstæður var liðlegast að vera með sem minnst djúpfar. Við leitina í Þingvallavatni var notaður hliðarsónar sem sér um 100 metra til hvorrar hliðar við bátinn. Báturinn sigldi fram og til baka eftir skilgreindu leitarmunstri og skannaði þannig stórt svæði. Sónarinn þarf vatn til að flytja hljóðbylgjur og nemur endurkast þeirra og teiknar upp skýra mynd af botninum. Hann sér jafn vel í gruggugu vatni og tæru. Ef eitthvað finnst er myndavél í bátnum með leifturljósi og hægt að fara aftur yfir staðinn til að taka ljósmyndir. Gæði þeirra eru mjög háð tærleika vatnsins. Gavia-djúpförin geta einnig borið fjölgeislamæla sem teikna skarpa mynd af vatns- eða sjávarbotninum.
„Hliðarsónarinn sendir eitt hljóðmerki í einu og gefur tvívíddarmynd en fjölgeislamælirinn sendir allt að þúsund hljóðmerki og býr til þrívíddarmynd,“ sagði Stefán. Systurfélag Teledyne Gavia í Danmörku, Teledyne Reson, smíðar fjölgeislamæla og er t.d. einn slíkur í sjómælingabátnum Baldri. Einnig er hægt að búa djúpförin þrívíddarmyndavélum sem byggjast á leysitækni.
Stefán segir að eitt flóknasta viðfangsefni við djúpför sé staðsetningarbúnaðurinn. GPS nær ekki undir yfirborð hafs og vatna. Því hafa verið þróuð mjög háþróuð tæki sem staðsetja bátinn eftir hreyfingu hans. Búnaðurinn byggist á gýró-tækni (fiberoptic gyro). Hann veit hvar norður er og mælir hreyfingu bátsins miðað við hreyfingu jarðar. Þannig getur hann reiknað út eigin hraða. Einnig er stuðst við þrýstingsnema og doppler-sónar til að staðsetja bátinn nákvæmlega.
„Upphaflega verkefnið varð til 1996 og fyrirtækið var stofnað 1999 þannig að við höfum verið að þróa þessa tækni í yfir 25 ár. Tækniþekking okkar og þróun er á heimsmælikvarða og við erum að keppa við mjög stór fyrirtæki á þessu sviði. Við njótum góðs af því að vera hluti af stóru fjölþjóðlegu fyrirtæki en fáum um leið að vera lítið fyrirtæki á Íslandi þar sem samskipti eru náin og boðleiðir stuttar,“ sagði Stefán.
Ákveðnar takmarkanir eru fyrir því hvert má selja tæknina samkvæmt útflutningsreglum sem gilda í EES. Oftast fæst söluleyfi, enda ekki um hergögn að ræða.
Hefur verið orðað að nota djúpfar til að kanna hvað leynist á botni Þingvallavatns.
„Það hefur ekki verið formlega rætt en við fáum af og til fyrirspurnir um að fara yfir áhugaverð svæði,“ sagði Stefán. „Við einbeitum okkur að þróun, framleiðslu og sölu á djúpförum frekar en þjónustu og að skanna svæði gegn greiðslu.“
Hann sagði að það gæti tekið tíma að kanna botn Þingvallavatns, stærsta stöðuvatns Íslands, og minnti á að Háskóli Íslands ætti Gavia-djúpfar sem gæti hentað í slíkt verkefni.