Yfir tuttugu kafarar frá séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar, lögreglu og slökkviliði hafa frá því á laugardag undirbúið þær björgunaraðgerðir sem hefjast í Þingvallavatni á morgun. Þá stendur til að ná upp líkum fjögurra manna og flugvél sem fórst með þá innanborðs, síðastliðinn fimmtudag.
Í dag var þeim búnaði sem þarf að nota við aðgerðina komið á vettvang við Ölfusvatnsvík í Þingvallavatni og hann settur upp.
„Þar sem um krefjandi aðgerðir er að ræða skiptir auðvitað öllu máli að skipuleggja hvert einasta smáatriði vel og það er það sem þeir hafa verið að gera undanfarna daga,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.
Að hans sögn er hver einasta mínúta kafaranna skipulögð. „Fyrstu kafarar fara í vatnið á morgun og það er búið að teikna upp nákvæmlega hvaða kafarar fara í vatnið þann dag. Svo fara aðrir í vatnið á föstudag. Síðan fer það eftir veðri og aðstæðum hvort aðgerðin dragist jafnvel fram á sunnudag.“
22 kafarar koma að aðgerðinni; 8 frá Landhelgisgæslunni, 6 frá lögreglu og 8 frá slökkviliði. Ásgeir segir að kafararnir muni taka sér allan þann tíma sem þarf í aðgerðina.
„Öryggið verður númer eitt, tvö og þrjú þegar að þessu kemur. Kafararnir verða með aðflutt loft, Það verður afþrýstitankur á svæðinu ásamt fjölmörgum öðrum græjum sem þarf fyrir krefjandi og mikilvægt verkefni eins og þetta.“
Ásgeir segir sérfræðiaðstoð frá einkaaðilum einnig hafa skipt miklu máli við undirbúning og þá hafa einkaaðilar líka lagt til ýmsan búnað. „Þetta hefur verið samstarfsverkefni mjög margra, bæði viðbragðsaðila og einkaaðila í þessum bransa, enda þarfnast verkefni sem þetta mikillar samvinnu, mikils undirbúnings og skipulagningar.“
Að lokum stendur til að þyrla frá Landhelgisgæslunni hífi flugvélina upp og komi henni yfir á þurrt land.
„Þegar búið verður að koma flotum undir vélina og koma vélinni upp á yfirborð vatnsins, þá er gengið út frá því að þyrla gæslunnar komi til með að hífa hana frá vatninu yfir á land. En það gæti líka farið svo að hún verði hífð með krönum,“ segir Ásgeir.
„Áhafnirnar eru þjálfaðar þegar kemur að þessum svokölluðu „sling“ verkefnum eða verkefnum sem krefjast þess að hlutir eru færðir frá A til B. Slíkar aðgerðir eru þjálfaðar og æfðar af þyrlusveitinni.“