Kalla eftir fleirum í bakvarðasveitina

248 starfsmenn Landspítala eru frá vegna einangrunar.
248 starfsmenn Landspítala eru frá vegna einangrunar. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Heilbrigðisráðuneytið hefur kallað eftir að fleira heilbrigðisstarfsfólk skrái sig í bakvarðasveit vegna aukins álags á heilbrigðisstofnanir vegna vaxandi fjölda kórónuveirusmita í samfélaginu.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Mesta þörf er fyrir sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna. Einnig er þó óskað eftir starfsfólki úr öðrum heilbrigðisstéttum. Þá geta nemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraliðanámi skráð sig.

Innlögnum vegna Covid-19 hefur fjölgað mikið undanfarna daga samhliða því sem aukin forföll eru meðal starfsfólks vegna veikinda. Mönnunarvandi á Landspítala er aðkallandi en í morgun voru 249 starfsmenn spítalans frá vinnu í einangrun. Þá eru hátt í 50 starfsmenn á Sjúkrahúsinu á Akureyri einnig frá.

Eru þeir sem sjá sér fært um að veita liðsinni beðnir um að skrá sig.

Hér er hægt að sjá nánari upplýsingar ásamt skráningarformi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert