Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur ekki skilað inn upplýsingum um hvort bregðast eigi við ábendingum sem umboðsmaður Alþingis setti fram í bréfi til ráðuneytisins, varðandi notkun á einveruherbergjum í grunnskólum, þrátt fyrir að viðbótarfrestur sé liðinn. Þetta staðfestir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, í samtali við mbl.is.
Umboðsmaður sendi Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, bréf þann 8. desember síðastliðinn og var upphaflega veittur frestur til 1. febrúar til að skila inn upplýsingum. Ráðuneytið óskaði eftir því að hann yrði framlengdur til 7. febrúar. Sá frestur er nú liðinn en engin svör hafa borist.
Næsta skref umboðsmanns er að senda ítrekunarbréf til ráðherra.
Ekki vísbendingar um frelsissviptingu
Bréfið var sent í kjölfar heimsókna umboðsmanns í nokkra grunnskóla vegna frumkvæðisathugunar á notkun einveruherbergja, sem ganga gjarnan undir nafninu „gula herbergið“. Það verklag tíðkast í einhverjum grunnskólum að skilja börn frá samnemendum sínum og vista þau jafnvel ein í slíkum herbergjum í þeim tilgangi róa þau niður. Gjarnan er um að ræða börn með sérþarfir sem skortir úrræði í skólakerfinu. Að minnsta kosti eitt slíkt mál hefur verið kært til lögreglu.
Upphaflega óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá grunnskólunum um aðstæður barna sem væru aðskilin frá samnemendum sínum. Eftir að svör höfðu borist frá skólunum fór umboðsmaður í heimsóknir þangað.
Ekki komu fram vísbendingar um nemendur væru kerfisbundið látnir dvelja í einveruherbergjum í svo langan tíma eða við þær aðstæður að jafnað yrði til frelsissviptingar.
Málinu verði fylgt eftir
Í bréfi til ráðherra vakti umboðsmaður hins vegar athygli á álitaefnum sem heimsóknirnar leiddu í ljós og óskað er eftir því að ráðuneytið veiti upplýsingar um hvort það hyggist bregðast við þeim ábendingum sem fram koma.
Jafnframt er vakin athygli ráðherra á þeim vanda sem starfsmenn skólanna lýstu vegna nemenda með sérþarfir og alvarlegan hegðunarvanda og kallað eftir skýrari afstöðu ráðuneytisins til notkunar einveruherbergja í því sambandi.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að málinu yrði fylgt eftir þegar svör hefðu borist frá ráðuneytinu. Það færi þó að sjálfsögðu eftir viðbrögðum ráðuneytisins.