Ríki og borg vinni saman að rannsókninni

Ljósmynd/Aðsend

Íslenska ríkið mun koma til með að aðstoða Reykjavíkurborg í að rannsaka starfsemi Vöggustofu Torvaldsensfélagsins og Vöggustofunni að Hlíðarenda á árunum 1949 til 1973. Þetta var ákveðið á fundi sem fulltrúar Reykjavíkurborgar áttu með fulltrúum forsætisráðuneytisins í dag, að sögn Þorsteins Gunnarssonar borgarritara sem sat fundinn.

Hann segir fundinn hafa verið gagnlegan og að það stefni í náið samstarf. Næstu skref munu nú annars vegar felast í því að senda formlega beiðni á forsætisráðuneytið vegna nauðsynlegra lagaheimilda og hins vegar að setja á stofn úttektarnefnd sem mun fara yfir starfsemina.

Rannsóknarheimildir lykilatriði

Skipa átti úttektarnefnd fyrir rannsóknina um miðjan október á síðasta ári en sú framkvæmd hefur þó tafist í tæpa fjóra mánuði, má meðal annars rekja ástæðuna til lagalegra álitamála.

Að sögn Þorsteins er lykilatriði að löggjafinn skapi heildstæða lagaumgjörð sem er nauðsynleg fyrir sveitarfélög til að ráðast í rannsóknir á vistheimilum. 

Var því lögð mikil áhersla á fundinum í dag að ræða þær lagabreytingar sem þörf er á svo úttektarnefnd rannsóknarinnar geti hafið störf eftir að hún verður skipuð.

„Það eru þá rannsóknarheimildir, upplýsingalög, stjórnsýslulög og sjónarmið persónuverndar.“

Að sögn Þorsteins tóku fulltrúar ráðuneytisins vel í tillögur fulltrúa borgarinnar og er það vilji ráðherra að greiða götur borgarinnar er varðar nauðsynlegar lagaheimildir. 

Einlægur ásetningur

Aðspurður kveðst Þorsteinn ekki vita hversu langan tíma það muni taka fyrir ríkið að veita nauðsynlegar lagaheimildir. Borgin hafi því til skoðunar hvort að hægt sé að skipa úttektarnefndina áður en það myndi eiga sér stað. Myndi þá nefndin sinna undirbúningsvinnu þar til full rannsóknarheimild væri komin í hús.

„Það er einlægur ásetningur okkar að vinna þetta af fullum krafti.“

Ekki farið „norsku“ leiðina

Þá var möguleikinn á „norsku“ leiðinni einnig ræddur á fundinum í tengslum við úrvinnslu rannsóknarinnar en hún felst í því að koma upp tilkynningagátt fyrir brotaþola.

Að sögn Þorsteins er það úrræði þó fyrst og fremst ætlað að grípa þá sem eru ekki hluti af stærri úttektum á borð við þessa rannsókn. Hafi sú hugmynd því ekki hlotið brautargengi.

Á morgun munu fulltrúar borgarinnar funda aftur en í þetta sinn verður það með forsvarsaðilum þeirra sem voru vistaðir sem börn á vöggustofurnar. Verður þá farið yfir stöðu undirbúnings rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert