„Sé ekki ástæðu til að vera alltaf í árásarham“

Ólöf Helga segist alveg jafn tilbúin að taka slaginn og …
Ólöf Helga segist alveg jafn tilbúin að taka slaginn og Sólveig, þó hún sé ekki jafn hávær. Samsett mynd/mbl.is

Ólöf Helga Adolfsdóttir, frambjóðandi til formanns Eflingar, er kannski ekki alveg jafn hávær og reið og Sólveig Anna Jónsdóttir, mótframbjóðandi hennar, en hún er alveg jafn tilbúin að taka slaginn og berjast fyrir réttindum félagsfólks Eflingar, að eigin sögn. Hún verður reið þegar tilefni til. Ólöf er hins vegar sár fyrir hönd starfsfólks á skrifstofu Eflingar sem henni finnst hafa verið vegið að með ósanngjörnum hætti síðustu mánuði. 

„Hún er kannski háværari en ég en það þýðir ekki að ég sé minna í baráttunni. Ég er ekki hrædd við að taka slaginn, ekki frekar en Sólveig, en sé ekki ástæðu til að vera alltaf í árásarham,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.

Ólöf, sem er núverandi varaformaður Eflingar, leiðir A-lista uppstillinganefndar en Sólveig, sem er fyrrverandi formaður félagsins, fer fyrir Baráttulistanum. Þriðji frambjóðandinn er Guðmundur Baldursson sem leiðir C-listann.

Starfsfólkið kvíðir mögulegri endurkomu Sólveigar

Flestir þekkja orðið átökin innan Eflingar. Sólveig sagði af sér formennsku í lok október á síðasta ári eftir að starfsfólk á skrifstofunni var ekki tilbúið að draga til baka lýsingar á vanlíðan og óöryggi sem það upplifði á vinnustaðnum og í samskiptum við þáverandi stjórnendur.

Trúnaðarmenn starfsfólks höfðu nokkrum mánuðum áður afhent stjórnendum ályktun þar sem þessar lýsingar komu fram, í þeim tilgangi að hægt væri að taka á málum og færa þau til betri vegar. Það gerðist hins vegar ekki og á starfsmannafundi í lok október setti Sólveig starfsfólkinu afarkosti. Það skyldi draga lýsingarnar til baka og gefa út lágmarks stuðningsyfirlýsingu við hana eða hún segði af sér. Þá hafði RÚV fengið veður af ályktuninni og fjölmiðlaumfjöllun vofði yfir.

Það er mat Sólveigar að hún hafi verið hrakin úr embætti, en síðan þá hefur hún gagnrýnt starfsfólkið opinberlega í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Ragnheiður Valgarðsdóttir, annar trúnaðarmanna starfsfólks Eflingar, sagði í viðtali við mbl.is fyrir skömmu að Sólveig hefði í raun gefið algjört skotleyfi á starfsfólkið með orðræðu sinni. Þá segist starfsfólkið vera óttaslegið og að það kvíði mögulegri endurkomu Sólveigar.

„Hún hefur alveg heyrt mig berjast“

Ólöf segir kosningabaráttuna hafa orðið persónulegri en hún bjóst við, en þær Sólveig voru áður samherjar í stjórn Eflingar.

„Við vorum saman í stjórninni í þrjú ár og jú, ég deili alveg hennar sýn á baráttunna og baráttumálin,“ segir Ólöf.

Sólveig sagði í viðtali í Stundinni í síðustu viku að hún hefði aldrei heyrt Ólöfu orða sína stefnu í verkalýðsbaráttu. Ólöf segir það hins vegar ekki rétt.

„Það hefur að sjálfsögðu kannski ekki komið jafn mikið frá mínum lista á sama tíma og frá henni, enda hef ég bara verið að kynnast fólkinu á mínum lista. En hún hefur alveg heyrt mig berjast, enda stóð ég ein í baráttu við Icelandair sem trúnaðarmaður. Þannig ég þekki alveg baráttuna.“

Ólöf starfaði áður sem hlaðmaður hjá Icelandair en henni var sagt upp í ágúst síðastliðnum þegar hún stóð í viðræðum við fé­lagið um rétt­inda­mál starfs­manna, en hún sinnti störf­um sem trúnaðarmaður frá 2018 og sem ör­ygg­is­trúnaðarmaður Vinnu­eft­ir­lits­ins frá 2020. Málið er enn til meðferðar hjá félagsdómi.

Sólveig studdi hana í þeirri baráttu og stýrði hún samstöðufundi á Reykjavíkurflugvelli um miðjan október síðastliðinn þar sem hún gagnrýndi Samtök atvinnulífsins harðlega fyrir þátttöku þeirra í uppsögn Ólafar. 

Vill Eflingu áfram innan ASÍ og SGS

En hver er munurinn á hennar stefnumálum og Sólveigar?

„Minn listi leggur mikið upp úr samvinnu og einingu innan verkalýðshreyfingarinnar, að við getum unnið saman og barist saman. Ég tel það helst skera mig frá Sólveigu. Hún hefur talað fyrir því að kljúfa sig frá ASÍ og talað um peningana sem fara í þessu stærri samtök. Að sjálfsögðu er mikilvægt að við tökum virkan þátt þar og beitum þessu sterka tæki sem þessi félög eru og vinnum saman.“

Ólöf telur því mikilvægt að Efling verði áfram aðildarfélag Alþýðusambandsins og Starfsgreinasambandsins. „Það hefur til dæmis verið mjög gott fyrir mig, þegar ég hef verið að fóta mig í nýju starfi, að leita til ASÍ og fá ráðleggingar þar svo ég fari að lögum og reglum. Svo er líka mikilvægt að hafa í huga að vinnustaðaeftirlitið er í gegnum ASÍ. Við höfum heimild til að fara inn á vinnustaði og fylgjast með hvort ekki sé verið að fara vel með starfsfólk og virða réttindi. Það eru mjög mikilvægir hlutir sem gerast í gegnum þessi stóru sambönd. Það væri agalegt ef Efling færi að kljúfa sig frá því.“

Þá segir hún A-listann leggja mikla áherslu á húsnæðismál, enda sé um að ræða hagsmunamál fyrir fyrir flestallt launafólk í landinu.

„Það er kannski erfitt að vera mjög ósammála um mikilvægustu baráttumálin, en hvernig á að gera hlutina er kannski öðruvísi.“

Erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf á háa C-inu

Ólöfu finnst óþarfi að mæta til leiks með reiðina og heiftina að vopni, en baráttugleði hennar sé ekki minni fyrir vikið.

„Ég er algjörlega tilbúin í baráttu eins og ég gerði með Icelandair og ég er ennþá í þeirri baráttu, en ég tel allt í lagi að byrja að tala. Það er engin ástæða til að stökkva af stað í stríðsöskrin áður en einhver er búinn að segja nei við mann. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af því að æsa mig fyrr en það er ástæða til þess. Mér finnst erfitt að taka mark á fólki þegar það endalaust uppi á háa C-inu. Þá veit maður ekki hvenær áherslan er og hvenær ekki.“

Í áðurnefndu viðtali Sólveigar í Stundinni, má skynja reiði í garð Alþýðusambandsins og Starfsgreinasambandsins. Hún segir til að mynda að valdafólk innan Starfsgreinasambandsins hafi verið „nagað af hatri og andúð.“ Þá sé það hennar upplifun að plássið sem Efling fái innan Alþýðusambandsins og sú virðing sem sjónarmið Eflingarfélaga njóti, sé ekki í samræmi við hve fjölmennt félagið er.

Hefur tamið sér að hlusta á fólk

Ólöf segist vissulega geta orðið reið, sérstaklega þegar brotið er á réttindum fólks.

„Ég get alveg verið reið en ég er kannski öðruvísi reið. Ég er reið yfir því óréttlæti sem samtök atvinnulífsins beita félagsmenn Eflingar og launafólk í landinu, en ég get alveg verið ósammála fólki án þess að vera reið út í það. Mér finnst líka eðlilegt að fólk sjái ástæðu til að gagnrýna mig, ég get gert mistök eins og aðrir. En ég verð reið yfir brotum sem virðast vera framin af ásetningi, eins og Samtök atvinnulífsins virðast vera tilbúin að styðja atvinnurekendur í. Þá verð ég reið. Ég vil einbeita mér að því að berjast á móti Samtökum atvinnulífsins og þeim sem berjast gegn okkar hagsmunum. Ekki þá sem hafa sömu hagsmuna og við að gæta, eins og ASÍ og Starfsgreinasambandið.

Mér þætti það bara grafa undan trúverðugleika mínum ef ég væri endalaust reið yfir öllu. Ég hef tamið mér að reyna að hlusta á það sem fólk hefur að segja. Taka það til mín sem ég á að taka til mín og kannski gefa mér tíma til að vega og meta. Svo ef ég sé ástæðu til þess þá get ég orðið reið. Til þess að reiði mín geti eitthvað bitið þá get ég ekki alltaf verið reið, enda held ég að það sé mjög þreytandi til lengdar.“

Traust er eitthvað sem þú ávinnur þér 

Sólveig sagði einnig í áðurnefndu viðtali við Stundina að sú manneskja sem fengi umboð frá félagsfólki til að gegna formennsku í Eflingu, ætti virðingu skilið. sagðist hún ætla að sér að njóta þeirrar virðingar.

Ólöf tekur annan pól í hæðina, en í grein sem hún ritaði og birtist á Visir.is í vikunni segist hún ekki ætla að heimta virðingu, heldur ávinna sér hana með baráttu sinni.

„Ég ólst upp við það og lærði það mjög ung að virðing og traust er ekki eitthvað sem þú krefst heldur eitthvað sem þú ávinnur þér. Um leið og þú ert farin að brjóta traust einhvers og missa virðingu þá er mjög erfitt að vinna sér hana inn aftur. Þannig það er um að gera að vanda sig,” segir hún í samtali við mbl.is.

Tók nærri sér þá útreið sem trúnaðarmenn fengu

Ertu sár út í Sólveigu? 

„Ég er ekkert sár persónulega en ég er ótrúlega sár fyrir hönd starfsfólksins á skrifstofunni sem hefur síðustu ár unnið þvílíka vinnu bæði fyrir hana og með henni. Sem trúnaðarmaður þá tók ég það mjög nærri mér hvernig útreið trúnaðarmennirnir okkar fengu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum vegna hennar orðræðu. Það var alveg smá sárt persónulega fyrir mig,“ segir Ólöf.

„Það skiptir svo miklu máli að trúnaðarmenn fái að sinna starfi sínu en séu ekki hengdir fyrir að koma fram með kvartanir sem samstarfsfólk kemur með til þeirra,” bætir hún við.

Hún segir ekki síður mikilvægt að gæta réttinda starfsfólks á skrifstofu Eflingar, enda sé það líka launafólk. Mikilvægt sé að réttindi alls launafólks séu virt. 

„Það er eðlilegt að Efling sem stéttarfélag komi vel fram við starfsfólkið sitt og að þetta sé góður vinnustaður. Að við komum fram við okkar starfsfólk eins og við krefjum atvinnurekendur um að koma fram við okkar félagsmenn.“

Skiptir máli að hafa hæft og reynslumikið starfsfólk

Ólöf bendir á að að skrifstofu Eflingar sé unnið mikilvægt starf fyrir félagsmenn og því skipti miklu máli að þar starfi hæft og reynslumikið fólk.

„Starfsfólkið á skrifstofunni það er að taka á móti félagsmönnunum, afgreiða ýmis mál og tækla þau með þeim. Allt frá því að fara yfir hvort fólk sé að fá rétt laun, hvort það hafi fengið desemberuppbót, upp í mál sem rata inn á borð lögreglu. Það er gífurlega mikilvægt að þetta fólk sé hérna og að það sé hæft fólk í þessum störfum, með reynslu, og við höfum verið mjög heppin með það.“

Ólöf segir það því algjörlega ranga nálgun að ætla að skipta út starfsfólkinu á skrifstofunni þegar ný stjórn tekur við.

„Við erum með mjög reynt starfsfólk og þetta er ekki reynsla sem þú tínir upp af götunni. Það getur til dæmis tekið mörg ár að læra að lesa í kjarasamninga. Mér finnst ósanngjarnt að stilla þessu upp þannig að þetta sé skrifstofan á móti félagsmönnum. Við hljótum að vilja gera þetta saman. Fyrir utan að margt starfsfólk á skrifstofunni er félagsmenn Eflingar og deila því hagsmunum með félagsmönnum. Starfsfólkið á skrifstofunni tók þátt í verkfallsvörslu og var með mér niðri á Reykjavíkurflugvelli að mótmæla minni uppsögn. Starfsfólkið tekur mjög virkan þátt í baráttunni og brennur fyrir starf sitt.“

Finnst þér hafa verið vegið að starfsfólkinu með ósanngjörnum hætti síðustu mánuði?

„Já mér finnst umræðan hafa verið mjög ósanngjörn.“

Lítur á sig og Sólveigu sem samherja

Þrátt fyrir að Ólöf sé gagnrýnin á stjórnunarhætti Sólveigar og framkomu í garð starfsfólks á skrifstofu Eflingar þá eru þær tvær ekki andstæðingar í hennar huga.

„Við erum mótframbjóðendur, en í mínum huga hljótum við að vera samherjar. Við erum báðar í þessu vegna okkar ástríðu fyrir hagsmunum félagsmanna og þá hljótum við að geta unnið saman hvernig sem fer. Ef ég til dæmis næ kjöri og minn listi þá væri ég alveg glöð að sjá Sólveigu koma og vera með okkur samninganefnd, vera í trúnaðarráði og taka þátt. Það er enginn að segja að við getum ekki unnið saman.“

Eru að vinna sér inn traust á skrifstofunni

Ólöf hefur gengt embætti varaformanns í rúma þrjá mánuði og segir starfið eiga vel við sig. „Ég var mjög hissa þegar ég komst á því að skrifstofuvinna ætti vel við mig en lærði fljótt að þetta er ekki venjuleg skrifstofuvinna. Enda er maður í baráttumálum allan daginn, hlaupandi um á göngunum og að spjalla við fólk. Maður situr ekki bara við tölvuskjáinn í gagnainnslætti eða eitthvað svoleiðis.“

Hún segir þær Agnieszku Ziólkowska, núverandi formann, hafa unnið vel saman og verið sammála um að auka upplýsingaflæði til félagsmanna. Þá hafi þær tekið þátt í uppbyggingu á vinnustaðnum í samstarfi við framkvæmdastjóra.

„Við höfum verið að vinna okkur traust á skrifstofunni, styrkja verkferla og vinna í jafnlaunavottun. Svo fengum við inn framkvæmdastjóra sem hefur reynst okkur mjög vel. Það er mjög gott að hafa einhvern sem hefur reynslu af því að stýra skrifstofu því við erum í rauninni ekki skrifstofufólk og þannig séð ekki stjórnendur. Við erum verkalýðurinn og erum að berjast fyrir réttindamálum verkalýðsins. Það er mikilvægt að við þekkjum það, eins og það er mikilvægt að sá sem stýrir skrifstofunni þekki það. Það er ótrúlega misjafnt hvernig reynsla og menntun nýtist í ákveðnum störfum. Í formanns- og varaformannssætið er mikilvægt að komi fólk úr verkalýðshreyfingunni og hefur unnið þau störf og veit hvað við erum að kljást við. En sá sem stýrir skrifstofu þarf að kunna það. Þess vegna er mikilvægt að hafa hæft starfsfólk sem hægt er að treysta á.“

Telur sig geta unnið kosningarnar

Þrátt fyrir að kosningabaráttan hafi orðið persónulegri en Ólöf gerði ráð fyrir, er hún spennt fyrir kosningunum, sem hófust á morgun og lýkur þann 15. febrúar. Kosningin er rafræn en einnig er hægt að mæta á skrifstofu Eflingar og greiða atkvæði.

„Ég er bara ótrúlega spennt og spennt fyrir því að hitta fleira fólk. Ég er með mjög gott fólk á listanum mínum og tel við getum gert frábæra hluti.“

Ólöf segist hafa fundið mikinn meðbyr með sínu framboði og telur sig vel geta unnið kosningarnar. „Já, að sjálfsögðu. Ég er vön því að vera í baráttu og berjast fyrir sjálfa mig og aðra, þannig ég held að það sé bara góður möguleiki fyrir mig og minn lista að ná þessu markmiði.“

Hún hvetur Eflingarfélaga til nýta kosningaréttinn, enda skipti miklu að fá góða kosningaþátttöku. „Það er mikilvægt að fólk kjósi, annars er einhver annar sem velur fyrir það hver leiðir félagið. Það skiptir máli hver er hér í formannssætinu.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert