Viðbragðsaðilar gera ekki ráð fyrir að hífa upp flugvélina sem fórst í Þingvallavatni fyrr en seinni part föstudags. Mögulega verður þó kafað að flakinu á morgun, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu.
Uppsetning vinnubúða vegna björgunaraðgerðanna fór fram í dag en þær eiga að hefjast á morgun. Gert er ráð fyrir að allir þeir sem koma að björguninni verði tilbúnir á vettvangi klukkan níu í fyrramálið.
Búið er að koma upp tjaldbúðum með aðstöðu fyrir björgunarmenn en á vettvangi verður meðal annars gámur með jafnþrýstiklefa fyrir kafara og fjarskiptabíll Landsbjargar sem er ætlaður til sérhæfðra fjarskipta. 22 kafarar koma að aðgerðinni, átta frá Landhelgisgæslunni, sex frá lögreglu og átta frá slökkviliði.
Aðgerðin sem um ræðir er mikið nákvæmnisverk og hafa síðustu dagar verið nýttir til ítarlegs undirbúnings, að því er fram kemur í tilkynningunni. Veðurspáin er hliðholl en náist ekki að tryggja öryggi kafara verður aðgerðum frestað.
Í tilkynningu lögreglu kemur einnig fram að Þingvallaþjóðgarður sé á heimsminjaskrá og í Þingvallavatni sé viðkvæmt lífríki sem þarf að vernda.