„Stjórnlaus“ húsnæðismarkaður rót vandans

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

Forseti ASÍ segir ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka vexti um 0,75 prósentustig vera mjög bratta og óþolandi fyrir fólk sem vill hafa fyrirsjáanleika í útgjöldum sínum.

Í bréfi sem hún sendi nefndinni á mánudaginn varaði hún við stórfelldum vaxtahækkunum til að bregðast við verðbólgu. Þrátt fyrir það voru stýrivextir hækkaðir um 0,75 prósentur. 

Stjórnlaus húsnæðismarkaður rótin 

„Þessar vaxtahækkanir gerast á sama tíma og húsnæðismarkaðnum er algjörlega hleypt lausum. Það er aukið peningamagn í umferð, fólk spennir bogann og breytir lánunum sínum í breytilega vexti , þannig að þetta hefur miklu meiri áhrif strax á fólk við þessar aðstæður heldur en hefur verið áður,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, spurð út í ákvörðun nefndarinnar.

Rótina að þessu segir hún vera „stjórnlausan“ húsnæðismarkað og þangað til náð verði böndum á honum sé vandi á ferð þegar kemur að húsnæðisöryggi fólks. Einnig sé ekki alltaf sjálfgefið að vaxtahækkanir hefti verðbólgu.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hótanir liðka ekki fyrir kjarasamningum

Á fundi nefndarinnar í morgun minntist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á kjarasamningana í haust og kvaðst óska þess að samningarnir tryggi verðstöðugleika því annars þurfi bankinn að breyta stýrivöxtum.

„Þessar aðdróttanir að kjarasamningar ráði úrslitum um það hvort þurfi að fara í enn frekari vaxtahækkanir eru afskaplega undarlegar því verðbólgan núna er sannarlega ekki launadrifin,“ segir Drífa og bætir við að kjarasamningar snúist um að bæta lífskjör fólks. Óheftur húsnæðismarkaður og rokkandi vextir geri það ekki.

Hún nefnir að verkalýðshreyfingin hafi ávallt samið með ábyrgum hætti en að fleiri þurfi að sýna ábyrgð og „hótanir verða ekki til þess að liðka fyrir kjarasamningum“.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Hefðu átt að taka okkar rökum 

Seðlabankastjóri talaði á fundinum um að bankinn hafi lagt aðaláherslu á heimilin í landinu þegar kórónuveiran fór af stað. Drífa segir það ekki eiga við um ungt fólk sem kom inn á húsnæðismarkaðinn á þeim forsendum að lágvaxtaskeið væri runnið upp, eins og seðlabankastjóri hafi lýst yfir á sínum tíma.

Sömuleiðis talaði bankastjórinn um mikinn kaupmátt heimilanna í faraldrinum og segir Drífa slíkt ekki eiga við um fólk á almennum leigumarkaði. Allur fjármagnskostnaður þeirra sem eiga húsnæðið hafi tilhneigingu til að fara beint í leiguna. Sömuleiðis eigi það ekki við um fólk sem reynir að koma sér þaki yfir höfuðið.

Hvað hefði Seðlabankinn átt að gera í morgun?

„Ég hefði viljað að þeir tækju ákalli okkar um að hækka ekki vexti á þessum tímapunkti og tekið okkar rökum,“ segir Drífa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert