Ummælin skuli standa í nafni tjáningarfrelsis

Reynir Traustason og Arnþrúður Karlsdóttir.
Reynir Traustason og Arnþrúður Karlsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

Hæstiréttur féllst ekki á kröfu Reynis Traustasonar ritsjóra Mannlífs um að ummæli Arnþrúðar Karlsdóttur útvarpskonu í garð hans yrðu dæmd dauð og ómerk. Var dómur Landsréttar staðfestur og munu ummælin standa í nafni tjáningafrelsis, en Hæstiréttur taldi Arnþrúði ekki hafa farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með ummælum sínum um Reyni. Var Reyni sömuleiðis gert að greiða Arnþrúði 800 þúsund krónur í málskostnað.

Ummælin tvö sem um ræðir féllu í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu 5. desember 2018. Voru þau eftirfarandi:

„Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“

„Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“

Vildi ummælin dauð og ómerk

Reynir fór fram á 300.000 krónur í miskabætur og að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk.

Upphaflega hafði héraðsdómur dæmt tvenn ummæli Arnþrúðar dauð og ómerk. Þeirri niðurstöðu var síðar áfrýjað til Landsréttar sem sneri dómi héraðsdóms við. Þann 12. október 2021 var málinu áfrýjað á nýjan leik að beiðni Reynis en eins og áður sagði staðfesti Hæstiréttur í dag fyrri niðurstöðu Landsréttar. 

Umræða sem gæti varðað samfélagið

Í dómi Hæstaréttar kom fram að þó ummælin hefðu verið óvægin hefði Arnþrúður ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis.

Ummælin væru framlag til opinberrar umræðu um málefni sem gæti varðað samfélagið. Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna geti verið hörð og óvægin án þess að sæta takmörkunum. 

Þá kom einnig fram að Reynir sem fjölmiðlamaður hefði verið ögrandi í störfum sínum í áratugi og hefði ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar og hlotið dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning.

Var þá Reyni gert að greiða Arnþrúði 800 þúsund krónur í málskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert