Áfram í haldi vegna ítrekaðra ofbeldisbrota

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur

Landsréttur staðfesti nýlega úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem er meðal annars ákærður fyrir líkamsárásir, þjófnað og fíkniefnalagabrot.

Ákæra hefur verið gefin út á hendur manninum í sex málum er varða líkamsárásir, þar á meðal þrjár, sem taldar voru sérstaklega hættulegar. Hann er meðal annars ákærður fyrir að hafa í ágúst slegið mann nokkrum sinnum í höfuðið, tekið hann hálstaki og sparkað í höfuð hans og búk. Hann er einnig ákærður ásamt öðrum ótilgreindum mönnum fyrir að hafa í nóvember 2018 slegið margsinnis í höfuð og búk tveggja aðila og sparkað í höfuð þeirra og búk eftir að þeir féllu í jörðina. Af þessu hlutu þeir úlnliðsbrot, áverka á höfði og í andliti.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa barið tvo aðila með hafnaboltakylfu og veitt öðrum aðila áverka með hnífi. Einnig er hann grunaður um að hafa stappað nokkrum sinnum ofan á höfði liggjandi manns. Hefur kærði játað sök í því máli en kveðst ekki muna eftir að hafa stappað á neinum. Myndbandsupptökur liggja fyrir í málinu.

Maðurinn hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa stolið vínflösku úr Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í Skeifunni og haft í vörslum sínum 19 stykki af Xanax töflum í október. Þá er hann ákærður fyrir að hafa sama kvöld veist að konu á skemmtistað í Reykjavík og slegið hana í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut sprungu á vör.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 3. október og hefur gæsluvarðhald verið staðfest til 4. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka