Bankarnir styðji við heimilin

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra telur að bankarnir eigi, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.

„Bankarnir eru að skila ofurhagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þennan ofurhagnað til að greiða niður vexti fólksins í landinu.“

– Þú nefnir ofurhagnað. Hvers vegna það hugtak? Er ekki eðlilegt að fjármálastofnanir skili hagnaði?

Eignaverð á uppleið

„Jú, en þetta er gríðarlega mikill hagnaður. Landsbankinn hagnaðist til dæmis um 30 milljarða í fyrra. Eignaverð hefur hækkað mikið í faraldrinum, bæði hlutabréf og fasteignir, og við þær aðstæður er ekki óeðlilegt að bankar skili miklum hagnaði. Þetta er hins vegar ofurhagnaður og til þess að við öll, samfélagið, komum vel út úr faraldrinum þurfum við að jafna byrðarnar.“

Sýni samfélagslega ábyrgð

Lilja telur samfélagslega ábyrgt af bankakerfinu og fjármálastofnunum að styðja við samfélagið á leið út úr faraldrinum. „Það skeið er að hefjast með því að Seðlabankinn er að hækka stýrivexti til að slá á hækkun vísitölu neysluverðs og við vitum auðvitað hvað drífur hana áfram – það er húsnæðisliðurinn – og við eigum líklega eftir að sjá meiri vaxtahækkanir. Ég tel því mjög mikilvægt að ákveðin heimili, sérstaklega ungs fólks og tekjulágra, sitji ekki eftir með svarta pétur. Það er því betra að bankarnir komi strax inn í þetta og fari að huga að heimilunum í landinu og ef bankarnir finna ekki einhverja lausn á því tel ég að við ættum að endurvekja bankaskattinn.“

– Hvernig ætti að útfæra þetta?

„Ég held að bankarnir þekki sína viðskiptavini best. Vextirnir hækka mest hjá heimilunum sem skulda mest, og þar með vaxtabyrðin, og þar á þunginn í aðstoðinni að vera.

Við erum auðvitað með vaxtabótakerfi í landinu sem fer í gegnum ríkissjóð en ég tel ekki óeðlilegt að bankarnir útfæri þetta sjálfir. Svo gæti sem áður segir hreinlega þurft að endurvekja bankaskatt, eins og við gerðum á sínum tíma, til að dreifa þessum byrðum. Ég tel óábyrgt að ríkissjóður borgi allan reikninginn fyrir faraldurinn og tel að bankarnir eigi að styðja við þau heimili og fyrirtæki, sér í lagi í ferðaþjónustu, sem koma einna verst út úr faraldrinum. Þá vísa ég í þá samfélagslegu ábyrgð sem fjármálastofnanir í landinu þurfa að sýna þegar vaxtastigið er farið að hækka,“ segir Lilja sem telur aðspurð að vaxtamunur sé orðinn of mikill á Íslandi. Hún vísar svo til fordæmis frá Bretlandi.

Thatcher skattlagði hagnaðinn

„Margaret Thatcher [forsætisráðherra Bretlands 1979-1990] gerði þetta á sínum tíma árið 1981 er hún setti skatt á fjármálastofnanir þegar vaxtastigið fór að hækka til að dreifa byrðunum. Þetta er því líka þekkt stefna frá hægri þar sem ríkisvaldið kemur inn og reynir að jafna byrðar.

Hugmyndafræði Thatcher var að skattleggja ofurhagnað banka og var skatturinn hugsaður sem einskiptisskattur til að leiðrétta það sem var tilkomið vegna ytri aðstæðna. Íslensku bankarnir hafa hagnast á markaðsviðskiptum, hagræðingu og öðru slíku en munu hagnast enn meira vegna vaxtahækkana. Því tel ég skynsamlegt að ríkisvaldið stigi inn á réttum tímapunkti og sá tímapunktur er núna.“

Fordæmi frá Frakklandi

Máli sínu til stuðnings bendir Lilja á að víða erlendis hafi ríki brugðist við verðbólguskoti í faraldrinum. Til að mynda hafi frönsk stjórnvöld farið þess á leit við orkufyrirtæki að lækka orkureikninginn til að verðbólgan fari ekki úr böndunum.

„Þannig að ríkisstjórnir eru að grípa til sérstakra aðgerða til að koma til móts við aukna verðbólgu.“

– Hvað með það sjónarmið að ekki eigi að grípa inn í markaðinn heldur láta hann leiðrétta sig sjálfan?

„Hvar værum við núna ef við hefðum gert það í faraldrinum?“ spyr Lilja, sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál, en hún telur aðspurð að endurskoða eigi vægi húsnæðisliðarins í verðbólgumælingum á Íslandi. Húsnæði sé ekki eins og hver önnur markaðsvara, heldur taki til dæmis tíma að auka framboðið.

Nú sé verðbólgan á Íslandi mikið til drifin áfram af húsnæðisskorti, sem sé ekki síst til kominn vegna lóðaskorts hjá Reykjavíkurborg sem hafi þrýst upp verðinu og það bitnað hvað harðast á ungu fólki.

Ágæt afkoma árið 2021

Stóru viðskiptabankarnir þrír skiluðu samtals um 60 milljarða hagnaði fyrstu níu mánuðina í fyrra.

Landsbankinn hefur birt uppgjör fyrir árið í heild og var niðurstaðan 30 milljarða hagnaður 2021.

Arion banki kynnti ársuppgjör fyrir 2021 í gær og skilaði bankinn þá tæplega 29 milljarða hagnaði. Íslandsbanki birtir ársuppgjör sitt hins vegar í dag.

Það sjónarmið viðskiptaráðherra kemur fram í viðtalinu hér til hliðar að vaxtahækkanir muni auka hagnað bankanna enn frekar.

Vextir hækkaðir í skrefum

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í nokkrum lotum í fyrra, úr 0,75 prósentum í tvö prósent, og svo aftur í gær um 0,75 prósentur og eru þeir nú 2,75 prósentur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert