Byrjuð að brjóta ísinn

Rörabátur var sendur út á Þingvallavatn til að brjóta upp …
Rörabátur var sendur út á Þingvallavatn til að brjóta upp ísinn sem hamlar þar aðgerðum. mbl.is/Óttar

Aðgerðir við að brjóta upp ísinn sem hamlar björgunaraðgerðum í Þingvallavatni eru nú hafnar.

Rörabátur var sendur út á vatnið fyrir skömmu til að greiða leið fyrir kafara og mátti heyra mikla skruðninga þar sem hann sigldi í gegnum ísilagt vatnið. 

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, sagði möguleika á því að kafarar væru sendir í vatnið á eftir ef aðgerðirnar myndu ganga vel. Annars þyrfti mögulega að fresta því fram á morgundaginn. 

Lygnt er úti en hiti er þó vel undir frostmarki, eða í kringum -10 gráður. Þá hefur nokkuð snjóað. Björgunarmenn binda vonir við að það fari að hlýna í veðri bráðum og mögulega hvessa aðeins en vindurinn gæti aðstoðað við að hreyfa til ísinn sem hefur verið brotinn upp. 

Um 60 manns eru á vettvangi til að aðstoða við aðgerðina, meðal annars frá lögreglu, landhelgisgæslu, björgunarsveitum og slökkviliðinu.

Uppfært 14:15: Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk af vettvangi er búið að fara með köfunarbúnað út á prammann á vatninu og líklegt er að fyrstu kafarar séu annað hvort að gera sig klára að fara ofan í vatnið, eða séu nú þegar byrjaðir að kafa. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar að lenda á svæðinu.

Nokkuð hefur snjóað í dag en nístingskuldi er úti.
Nokkuð hefur snjóað í dag en nístingskuldi er úti. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert