Fella niður gjalddaga bílatrygginga

Forstjóri Sjóvá segir rekstur félagsins hafa gengið vel og því …
Forstjóri Sjóvá segir rekstur félagsins hafa gengið vel og því vill félagið að viðskiptavinir þess njóti góðs af því. mbl.is/Árni Sæberg

Sjóvá hefur ákveðið að fella niður maígjalddaga lögboðinna ökutækjatrygginga einkabíla viðskiptavina á þessu ári, þótt tryggingarnar verði áfram í fullu gildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Sjóvá felldi niður iðgjöld ökutækjatrygginga í maí 2020, þegar lokanir í samfélaginu vegna Covid-19 stóðu sem hæst. 

2.600 milljónir endurgreiddar eða niðurfelldar

Í tilkynningunni segir að viðskiptavinir Sjóvá í Stofni hafi samtals fengið 1.300 milljónir í Stofnendurgreiðslu síðustu tvö ár. Með niðurfellingu gjalddaga í maí 2020 og með fyrirhugaðri niðurfellingu hafa viðskiptavinir Sjóvá því samtals fengið um 2.600 milljónir endurgreidda eða niðurfelldar á tveggja ára tímabili.

„Okkur finnst sanngjarnt að koma til móts við viðskiptavini okkar með þessu hætti. Nú lítur út fyrir að óvenjulegu tímabili sé að ljúka sem hefur verið samfélaginu krefjandi. Rekstur félagsins hefur gengið vel í gegnum þennan tíma og við viljum að viðskiptavinir okkar njóti góðs af því. Þess vegna ráðumst við í að fella niður iðgjöld lögboðinna bifreiðatrygginga líkt og í maí 2020,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvá, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert