Flugfélagið Icelandair hefur stefnt kanadíska viðhaldsfyrirtækinu Kelowna Flightcraft fyrir misheppnað viðhald á lendingarbúnaði Boeing-757 vél fyrirtækisins sem hlekktist á í lendingu eftir að hjólabúnaður vélarinnar brotnaði.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa skilgreindi málið sem flugslys, en það varð þann 7. febrúar 2020 og var þotan með 160 farþega innanborðs og 6 manna áhöfn. Engin slys urðu á fólki.
Flugfélagið sakar Kelowna Flightcraft um að hafa notað ró af rangri stærð til þess að festa lendingarbúnað vélarinnar. Þetta kemur fram í frétt Kanadíska ríkisútvarpsins, CBC. Vísir greindi frá fyrst íslenskra miðla.
Skipt var um lendingarbúnað í reglubundinni skoðun í Kanada 19. nóvember 2019 og var hann því nýr. Þetta kom fram í bráðabirgðaskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í apríl 2020. Brot út hjólabúnaðnum fannst á flugbrautinni við rannsókn slyssins.
Icelandair sakar viðhaldsfyrirtækið um vanrækslu og/eða rof á samningi fyrirtækjanna og krefst þess að skaðabætur nemi kostnaði vegna skemmda á þotunni auk tekjutaps af völdum slyssins.