Leitar lögfræðiálits um áfengislöggjöfina

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra, leitar til sérfræðinga í Evrópurétti.
Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra, leitar til sérfræðinga í Evrópurétti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson innanríkisráðherra ætlar að fá hóp sérfræðinga í Evrópurétti til þess að svara spurningum varðandi einkasölurétt ríkisins á áfengi hér á landi með lögfræðiáliti.

Hann segir að svör nefndarinnar, sem hann vill fá á skömmum tíma, gætu síðan leitt til þess að ráðherra myndi leitast eftir ráðgefandi áliti frá EFTA-dómstólnum. Það gæti síðan leitt til þess að þingið neyddist til þess að taka málið til umfjöllunar og ræða mögulegar breytingar á á áfengislöggjöfinni

Þetta kom fram í ávarpi hans á fundi Félags atvinnurekenda, Gerjun á áfengismarkaði, sem haldinn var rafrænt kl. 14 í dag.

Rökleysa á bak við ástandið

„Þetta er tilraun til þess að sýna fram á þær ógöngur sem við erum komin í og þá rökleysu sem liggur að baki þessu ástandi,“ segir ráðherra.

Jón segir umdeilt að þau lýðheilsusjónarmið, sem löggjöfin um áfengissölu hér á landi, eigi við í dag. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað lagt fram þingmál um að afnema einkasölurétt ríkisins og opna markaðinn „í samræmi við nútíma verslun og viðskipti“. Sala áfengis á netinu hafi til dæmis breytt stöðunni á áfengismarkaði.

Þá segir hann að þrátt fyrir þessar ítrekuðu tilraunir til að ná fram málefnalegri umræðu og þinglegri meðferð hafi þessi þingmál aldrei fengið nægilegan hljómgrunn til þess að rata í atkvæðagreiðslu á þingi. Við þessar aðgerðir gæti orðið breyting þar á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka