Margir treysta á matarúthlutun

Enn er fjöldi fólks í þörf fyrir matarúthlutun.
Enn er fjöldi fólks í þörf fyrir matarúthlutun. mbl.is/Golli

Þrátt fyrir að ástandið í þjóðfélaginu sé að færast í eðlilegra horf eftir langvarandi erfiðleika í kórónuveirufaraldrinum hefur þörfin fyrir mataraðstoð lítið minnkað, að mati forsvarsmanna Fjölskylduhjálpar Íslands og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Enn sé fjöldi fólks í þörf fyrir matarúthlutun.

Miklar annir voru hjá starfsfólki og sjálfboðaliðum hjálparsamtakanna fyrir jólin, eins og alltaf er. Þeir aðstoðuðu mörg þúsund manns með jólamatinn. Þar skipti framlag Kaupfélags Skagfirðinga sköpum því það lagði til margvísleg matvæli úr matvælaframleiðslu sinni eins og félagið hafði gert fyrir jólin 2020 og fyrir páskana í fyrra.

„Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á atvinnulífið þegar hann skall á. Við litum á það sem samfélagslega skyldu okkar sem stórs matvælaframleiðanda að styðja við þá sem misstu vinnuna eða stóðu höllum fæti af öðrum ástæðum með því að standa við bakið á hjálparstofnunum og höfum haldið því áfram í covid-faraldrinum,“ segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Hann segir að félagið sé stolt af því að hafa getað orðið að liði við þessar aðstæður.

Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri.
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri. mbl.is/RAX

Spurður hvað félagið hafi lagt í þetta verkefni segir hann, eins og áður þegar hann hefur verið spurður, að ekki sé rétt að meta það í krónum og aurum en segja megi að KS hafi lagt til einhver hundruð þúsunda máltíða í kórónuveirufaraldrinum.

Ekki komast allir að

Fjölskylduhjálp Íslands var lokuð í janúar. Ásgerður Jóna Flosadóttir formaður segir að sjálfboðaliðar samtakanna hafi lagt mikið á sig fyrir jólin og nauðsynlegt hafi verið að gefa þeim frí. Þó hafi verið eins konar neyðarúthlutanir á hverjum degi, yfirleitt eftir ábendingu frá starfsfólki stofnana í heilbrigðis- og félagskerfinu.

Hún segir að mikið sé spurt um næstu matarúthlutanir. Ákveðið hafi verið að næst verði mat úthlutað í Iðufelli í Reykjavík 15. þessa mánaðar og í Reykjanesbæ 16. febrúar. Hún segir að nú verði fólki gefinn kostur á að sækja um á netinu og þeir sem komast að fái smáskilaboð í síma um það hvenær nákvæmlega þeir geti sótt matinn.

Ásgerður segir að staðan sé þannig að reikna megi með að ekki komist allir að í fyrstu úthlutun. Þegar búið verður að úthluta því sem til er lokist fyrir úthlutun í það skiptið en umsóknirnar færist yfir á næsta og ef til vill þar næsta úthlutunardag. Einnig þurfi að taka tillit til sjálfboðaliðanna, þeir geti ekki unnið endalaust.

Ásgerður Jóna.
Ásgerður Jóna. Ljósmynd/Ernir Eyjólfsson

Öryrkjar og hælisleitendur

Spurð hvaða hópar sæki mest í matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni segir Ásgerður að flestir séu á leigumarkaði. Ráðstöfunartekjur fólks hafi ekki aukist, þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálamanna um annað, margir hafi ekki efni á að leysa út lyfin sín eða borga fyrir sjúkrabílinn. Það komi til Fjölskylduhjálpar Íslands. Nefnir hún öryrkja, einstæða foreldra og einhleypa karlmenn. Um helmingur skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar Íslands er af erlendu bergi brotinn, meðal annars hælisleitendur á ýmsum stigum í umsóknarferli. Ásgerður gagnrýnir hugmyndir um að ríkið hætti allri aðstoð við hælisleitendur sem fengið hafi synjun. Þeir muni koma beint til Fjölskylduhjálparinnar og auka álagið þar. Hún segir að til þess að sinna þörfum fólksins þyrfti stærra húsnæði, fleiri sjálboðaliða og meira fjármagn til kaupa á mat.

Anna Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, segir að mat hafi verið úthlutað tvisvar í tveimur síðustu vikum janúarmánaðar og það verði gert í febrúar og áfram, eftir því sem unnt verði. Hún segir að 300-400 manns komi til Mæðrastyrksnefndar á viku um þessar mundir.

Anna H. Pétursdóttir.
Anna H. Pétursdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að fólk úr ýmsum hópum sæki sér mat en telur að öryrkjar séu í mestri þörf fyrir aðstoð nú eins og oftast áður. Eins virðist einstæðar mæður hafa það slæmt. Hún nefnir einnig heimilislaust fólk og fíkla.

Ekki telur Anna að það fækki í hópi skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar þótt kórónuveirufaraldurinn sé að fjara út. Tekur þó fram að fleiri séu með vinnu og finnst að færra fjölskyldufólk komi núna en oft áður. Annars hafi þörfin verið nokkuð stöðug. Mæðrastyrksnefnd aðstoði marga í hverri viku.

KS fær þakkir fólksins

Anna Pétursdóttir segir að mikil vinna fari í að safna fé til að kaupa mat. Einnig fáist matur gefins frá fyrirtækjum og nefnir sérstaklega framlag Kaupfélags Skagfirðinga. Mikið hafi munað um það.

Ásgerður Jóna Flosadóttir segir óljóst um framhaldið. Kaupfélag Skagfirðinga hafi stutt Fjölskylduhjálp Íslands og aðrar hjálparstofnanir þrisvar sinnum, fyrir jólin 2020, páskana á síðasta ári og síðan um jólin. Hún segir að forsvarsmenn fyrirtækisins fái bestu þakkir fólksins sem notið hefur þess mikla stuðnings sem fyrirtækið hefur veitt síðustu misseri. Hún segir að fleiri fyrirtæki séu að taka við sér og sendi mat til úthlutunar.

Unnið að opnun matarbanka

Fjölskylduhjálp Íslands er að koma sér upp svokölluðum matarbanka sem opinn verður alla virka daga og fólk getur sjálft valið sér vörur úr. Þangað er beint matvælum sem eru við það að renna út á tíma en eru góður matur ef hann er notaður strax. Þá er stefnt að því að bjóða upp á heita súpu sem fólk geti tekið heim með sér.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, fagnar því að vera komin með húsnæði fyrir matarbanka í Iðufelli 14, í sama húsi og Fjölskylduhjálpin hefur til afnota. Þangað verði beint mat sem sé að renna út á tíma og fyrirtæki gefi í stað þess að setja í urðun. Einnig vörur sem hafi verið frystar áður en kom að síðasta söludegi. Hún segir að þetta séu góðar vörur en þurfi að notast strax. Þá dragi þetta úr matarsóun og sé gott innlegg í loftslagsmálin. „Fyrirtækin hringja orðið í okkur á morgnana og við sækjum matinn til þeirra jafnóðum,“ segir Ásgerður.

Matarbankinn verður að hennar sögn með opið alla virka daga frá klukkan eitt til fimm. Fólk sem áður hefur skráð sig á netinu fær smáskilaboð í símann um það klukkan hvað og hvaða dag það getur sótt sér mataraðstoðina og valið sér mat sem þar verður í boði hverju sinni.

Matarbanki Fjölskylduhjálpar Íslands verður opnaður í mars. „Markmiðið er að ekkert barn fari svangt að sofa og að öll börn geti farið með nesti í skólann.“

Hugmyndin er einnig að elda súpur þannig að seinnihluta dags geti skjólstæðingar Fjölskylduhjálparinnar komið með eigin ílát og farið með súpu og brauð með sér heim. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka