Ógn við heilsu samfélagsins

Már Kristjánsson.
Már Kristjánsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans, segir stöðuna á Landsspítala vera mjög erfiða. Það sé helst vegna þess hve margir starfsmenn spítalans séu frá störfum. Honum líst ekki á að frekari afléttingar verði tilkynntar á morgun og segir að það stefni í það að heilbrigðiskerfið geti ekki staðið vörð um heilsu samfélagsins. En tveir með Covid-19 létust síðasta sólarhring.

Á spítalanum liggja 36 á spítala með Covid, þar af fimmtán vegna Covid. Þrátt fyrir að þeim sem séu inniliggjandi vegna Covid hafi fækkað um fjóra segir Már það ekki skipta miklu máli fyrir horfurnar á spítalanum. „Eins og málin standa núna þá er sama fyrirhöfn að sinna fólki sama hvort það er á spítala með eða vegna Covid. Það er bara alveg sama nálgunin.“

Tvö andlát síðastliðinn sólarhring

Nú liggja tveir á gjörgæslu, annar nýlega lagður inn en hinn segir Már að glími við eftirköst af Covid. Hinir 34 eru á hinum ýmsu deildum spítalans.

Már segir að tveir hafi látist síðastliðinn sólarhring og voru það hvort tveggja einstaklingar sem voru orðnir nokkuð fullorðnir. Í tölum dagsins hafði einungis verið tilkynnt um annað andlátið þar sem hitt átti sér stað eftir miðnætti.

Erfiðleikarnir tengjast einangrun starfsfólks

Innlögnum hefur þó ekki fjölgað í samræmi við þann mikla fjölda sem hefur greinst með Covid undanfarna daga og vikur. 

„Viðfangsefnið okkar í dag er miklu minna vegna alvarlegra veikinda fólks. Það sem er að valda okkur erfiðleikum er að það eru að bætast við margir tugir starfsmanna á hverjum einasta degi í einangrun.“

Núna eru um 250 starfsmenn í einangrun. Um 50 fimmtíu bættust við í dag en á móti voru um 30 sem losnuðu úr einangrun.

Í tengslum við þessa 50 starfsmenn segir Már að fara þurfi í umtalsverða rakningarvinnu, oft bæði meðal starfsfólks og sjúklinga.

„Brottfall starfsmanna, hægagangur í starfsemi legudeildanna sem afleiðing af þessu og hægagangur í starfsemi stofnana heilbrigðiskerfisins í heild sinni,“ segir Már að séu helstu áhyggjuefnin. 

„Svo höfum við hægt og bítandi verið að reyna að mæta þörfum samfélagsins um verkefni sem við höfum slegið á frest.“

„Mér líst ekki vel á afléttingar“

Búist er við að tilkynnt verði um frekari afléttingar á sóttvarnaraðgerðum á morgun.

„Mér líst ekki vel á afléttingar. Síðustu tvo sólarhringa hafa yfir tvö þúsund verið greindir hvorn daginn og það eru þúsundir sýna enn ógreind inni á veirufræðideildinni. Það er ótrúlegur fjöldi fólks úti í samfélaginu sem er með smit,“ segir Már

„Þær takmarkanir sem Þórólfur og hans lið hefur gripið til hafa haft umtalsvert að segja. Með þeim afléttingum sem hafa átt sér stað undanfarna tíu daga hefur fjöldi smita aukist gífurlega.“

Ógn við heilsu og þjónustu samfélagsins

Þegar Már er spurður hvort aflétting sóttkvíar yrði til þess að fleiri starfsmenn spítalans gætu mætt til starfa segir hann:

„Það breytir engu fyrir okkur hvað er gert úti í samfélaginu, við getum ekki slakað á. Spítalinn er fyrirtæki í heilbrigðisþjónustunni og um hann gilda lög um réttindi sjúklinga og  siðareglur heilbrigðisstétta. Svo við getum ekki hagað okkur eins og gert er úti í samfélaginu vegna þess að okkar ábyrgðarsvið er að standa vörð um heilsu þeirra sem standa höllum fæti,“ segir hann.

„Við erum hægt og bítandi að komast á það stig að við getum ekki staðið vörð um það sem við eigum að standa vörð um. Með þessari útbreiðslu smita breytist ógnin frá því að vera ógn við einstaklingana og heilsu þeirra yfir í að vera ógn við heilsu og þjónustu samfélagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert