Takmörkun afhendingar Landsvirkjunar á raforku samkvæmt samningum um skerðanlega orku til fjarvarmaveitna á köldum svæðum, stóriðjufyrirtækja og gagnavera kom til framkvæmda á miðnætti. Áður hafði skerðing orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana á köldum svæðum tekið gildi.
Ástæðan fyrir því að Landsvirkjun virkjar ákvæði í samningum um skerðanlega orku er lakur vatnsbúskapur á hálendinu. Stærsta hluta skerðingarinnar bera fiskimjölsverksmiðjurnar en alveg er skrúfað fyrir afhendingu til þeirra eins og fiskþurrkana og fjarvarmaveitna á köldum svæðum.
Fiskimjölsverksmiðjurnar og fjarvarmaveiturnar taka á sig mikinn aukakostnað með kaupum á jarðefnaeldsneyti til að knýja katlana í stað rafmagns. Þannig er áætlað að Orkubú Vestfjarða þurfi að bera 360 milljóna króna kostnað vegna þessa en það svarar til þess að tveggja ára rekstrarhagnaður hafi flogið út um gluggann, eins og Elías Jónatansson orkubússtjóri tekur til orða.
Áætlað hefur verið að skerðingarnar standi í þrjá til fjóra mánuði. Ekki er þó ljóst hvenær skerðingum lýkur, veðurfar og þá sérstaklega vorkoman mun stýra því, samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.