Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir skýringum og svörum frá heilbrigðisráðherra vegna reglna um 50 manna samkomutakmarkanir, í reglugerð sem tók gildi þann 29. janúar síðastliðinn.
Umboðsmaður spyr hvaða gögn, upplýsingar eða röksemdir hafi legið til grundvallar því mati ráðherra að „brýna nauðsyn“ hafi borið til að miða samkomutakmarkanir við 50 manns, með tilteknum undantekningum, og þeirri niðurstöðu að önnur vægari úrræði m.t.t. stjórnarskrárvarinna réttinda hafi ekki verið tiltæk. Einnig er spurt með hvaða hætti ráðherra hafi lagt sjálfstætt og heildstætt mat á tillögur í minnisblaði sóttvarnalæknis sem lagt var til grundvallar reglugerðinni.
Vísað er til þess í bréfi til ráðherra að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar valdi sjaldnar alvarlegum veikindum og töluverð fækkun hafi orðið á þeim sem þurfi á gjörgæsluinnlögn að halda. Þá hafi sjúkrahúsinnlögnum vegna Covid-19 fækkað töluvert á undanförnum mánuðum, sérstaklega hjá þeim sem fengið hafið örvunarskammt.
Í bréfi umboðsmanns segir meðal annars að ekki fari á milli mála að tilteknar sóttvarnaaðgerðir sem mælt er fyrir um í reglugerðinni hafi í för með sér beinar og óbeinar takmarkanir á athafnafrelsi borgaranna auk þess að setja ýmiskonar félags- og atvinnustarfsemi meiri skorður en leiði af almennum reglum. Þá kunni takmarkanirnar að hafa áhrif á veitingu opinberrar þjónustu, t.d. menntun og ýmislegt þar að lútandi.
Umboðsmaður óskar eftir svari frá ráðherra fyrir 19. febrúar næstkomandi, en ef samkomutakmarkanir verði rýmkaðar innan þess tíma er þess óskað svör ráðherra taki mið af því.
Þess ber að geta að heilbrigðisráðherra hefur gefið það út að öðru skrefi afléttinga verði flýtt og að tilslakanir á núverandi sóttvarnareglum verði kynntar eftir ríkisstjórnarfund á morgun.