Óskar Leifur Arnarsson, íbúi á Patreksfirði, segir manngerð mistök hafa valdið því að snjóflóð sem féll í bænum á aðfaranótt mánudags hafi sveigt í átt að byggð og inn á lóð Óskars.
Óskar og fjölskylda voru á meðal þeirra sem urðu að rýma hús sín í fyrradag þegar hættustigi var lýst yfir á Patreksfirði vegna snjóflóðahættu. Í gær var rýmingunni aflétt og er fjölskyldan því komin heim.
Að sögn Óskars var nágranni hans að fara til vinnu rétt fyrir kl. 8 á mánudagsmorgun og sá þá hengju losna í fjallinu fyrir ofan Patreksfjörð og kom hún niður á ógnarhraða. Snjóflóðið lenti síðan á jarðvegshaug sem er búið að setja ofarlega í fjallshlíðina og splundrast þar.
„Svo sá hann húsið mitt hverfa í snjókófi og hann sneri við á punktinum og hljóp inn til sín og hugsaði að nú væru bílarnir og allt farið,“ segir Óskar en sem betur fer fór ekki svo illa.
Að sögn Óskars er um að ræða stærðarinnar haug af jarðvegi sem hefur verið komið fyrir tímabundið í miðri þekktri snjóflóðarás og á að nota síðar annarsstaðar í verkinu. Haugurinn hefur verið mokaður upp af verktakanum Suðurverk, sem er að vinna að snjóflóðavörnum á Patreksfirði en varnirnar eiga að verja þann hluta byggðarinnar sem var rýmdur.
Um klukkustund eftir að nágranninn verður vitni að snjóflóðinu fer Óskar að skoða málin og sér ummerki um að það hefði fallið snjóflóð úr hlíðinni.
„Þegar snjóflóðið lendir á þessum haug þá sveigir það að stórum hluta til vesturs og á þá varnargarðinn sem verið er að reisa og yfir hann. Maður sá alveg merki þess hvar það hafði farið yfir varnargarðinn og svo sá ég mörk þess fyrir ofan, inni og til hliðar við lóðina okkar,“ segir Óskar og bætir við að snjóflóðið hafi komið miklu nær húsinu hans en hann kærir sig um að fá snjóflóð.
Óskar segir að í framkvæmdum við nýja varnargarða hafi fjallinu og landslaginu verið breytt og þessi efnishaugur settur upp í miðja snjóflóðarásina sem stýrði þá flóðinu til vesturs og ef ekki hefði verið krukkað í fjallshlíðina hefði snjóflóðið líklega farið meira til austurs eins og vaninn var áður en framkvæmdir hófust.
Óskar bendir á að þegar hann og kona hans keyptu húsið á Patreksfirði fyrir tæpum þremur árum síðan hafi þau kannað málið varðandi framkvæmdir við ofanflóðavarnirnar og snjóflóðasöguna og af þeim upplýsingum sem hann aflaði sér þá hafði aldrei fallið snjóflóð á lóðina við húsið. En að hins vegar hafi verið þekkt skriðu- eða snjóflóðahættusvæði austan við hús en þar eru engin hús vegna þessa.
Auk þessi bentu margir honum á að í fjallsbrúninni væri skál sem oft hefðu fallið úr snjóflóð en heimamenn vildu meina að skriðhryggur neðar í hlíðinni hefði beint flóðunum frekar til austurs í burtu frá húsi Óskars og hann virkað eins og nokkurs konar náttúrulegur leiðargarður. Hins vegar þegar framkvæmdir hófust við gerð nýs varnargarðs var skriðuhryggurinn grafinn í burtu og byggðin sett í meiri hættu á framkvæmdatíma.
Óskar segir marga íbúa, sem þekkja til, hafa lýst yfir skoðunum sínum á framkvæmdinni. „En það virðist svolítið vera í svona hönnunarferli að það sé markvisst ekki tekið mark á heimafólki.Hönnunin fer fram á verkfræðiskrifstofum og það er fólkið sem á að hafa vit fyrir okkur. Staðþekking og kunnátta heimafólks er einskis metin,“ segir Óskar.
Þá vill Óskar meina að kynning á framkvæmdunum hafi verið og sé enn ábótavant. Fólk hafi frétt út í bæ af breyttri hönnun og hönnunargöllum og lítil svör fengist frá starfsmönnum bæjarins varðandi framkvæmdasvæðið sem er á lóðamörkum við hús Óskars. Síðan framkvæmdir hófust hafi það gerst að vatnsflóð, aur og grjóthnullungar hafi lent inn á lóðinni. „Nú sé komið nóg þegar snjóflóði sé beint á húsið af mannavöldum. Frágangur á vinnusvæði á ekki að vera þannig að hann setji íbúðarbyggð í hættu,“ segir Óskar.