Varðhald vegna tilraunar til manndráps

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem er grunaður um ítrekuð brot á síðasta ári beint í kjölfarið á því að hann losnaði úr afplánun, en brotin náðu svo hámarki í desember en samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurðinum er hann sakaður um árás á fyrrverandi unnustu sína sem flokkast sem tilraun til manndráps. Í kjölfar árásarinnar sætti hann nálgunarbanni sem hann braut ítrekað.

Maðurinn var fyrst úrskurðaður í varðhald vegna málsins 9. janúar og sætti hann því til 4. febrúar. Var varðhaldið þá framlengt til 3. mars af Héraðsdómi Norðurlands eystra og staðfesti Landsréttur í vikunni úrskurðinn.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi í mars í fyrra losnað úr varðhaldi, en að brotaferill hans hafi að nýju hafist í lok júní. Eru til rannsóknar 14 mál gegn honum hjá fjórum lögregluembættum. Er metið að maðurinn stundi síafbrot, en hann var fyrst settur í varðhald í júlí sem átti að standa til loka ágúst. Hófst þá ný afbrotahrina mannsins, meðal annars árásin á fyrrverandi unnustu sína.

Í úrskurðinum eru listuð upp mál gegn manninum. Er það meðal annars hótanir og eignaspjöll, brot á vopnalögum, líkamsárás þar sem hann sparkaði í höfuð stúlku og umferðalagabrot, meðal annars fíkniefnaakstur.

Nágranni konunnar braust inn og kom til bjargar

Frá í desember eru svo mál sem varðar húsbrot á heimili fyrrverandi unnustunnar og svo árásin. Er því lýst þannig að maðurinn hafi beitt konuna miklu ofbeldi og meðal annars að hann hafi tekið með höndum um háls konunnar og sett púða yfir vit hennar. Heyrði nágranni konunnar lætin og braust inn í íbúðina og bjargaði henni. Eins og fyrr segir metur lögreglan sem svo að maðurinn hafi gerst sekur um tilraun til manndráps.

Maðurinn er einnig sakaður um árás á opinberan starfsmann með því að hafa keyrt á lögreglumann sem var að reyna að stöðva akstur hans.

Fram kemur að öll málin séu á lokametrum í rannsókn og ákærumeðferð. Telur lögreglan að maðurinn sé stjórnlaus og að konunni stafi veruleg hætta af honum. Því sé nauðsynlegt að maðurinn sæti framlengdu gæsluvarðhaldi og féllst bæði héraðsdómur og Landsréttur á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka