Mikill viðbúnaður lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra á Miklubraut í morgun tengist skotárás í Grafarholtinu á fjórða tímanum í nótt. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
„Þessi handtaka seinna í nótt var í tengslum við þessa skotárás,“ segir Grímur en í tilkynningu frá lögreglunni segir að karlmaður hafi verið handtekinn miðsvæðis í borginni vegna málsins.
Skotið var á karl og konu sem voru stödd utandyra í Grafarholti í nótt. Þau voru flutt á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra, en eru ekki í lífshættu.
Grímur vill ekki segja til um hvort tengsl eru á milli árásarmannsins og fórnarlambanna.
Lögreglan þurfti ekki að beita skotvopnum við aðgerðina og Grímur tekur fram að almenningi sé engin hætta búin vegna málsins, en rannsókn þess er á frumstigi.