Í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokk fólksins, heilbrigðisráðherra hvort það væri rétt að reglur um sóttkví og einangrun yrði felldar úr gildi á morgun eins og kveðið er á um í skrefi tvö í minnisblaði.
„Verður fólk með virkt Covid-smit frjálst ferða sinna, verður fólk sem hefur verið í nánum tengslum við smitaða skikkað til vinnu?“ spurði Guðmundur í fyrirspurn sinni.
Hann benti á að met hefði verið slegið í fjölda staðfestra Covid-smita í gær og einnig að um 250 starfsmenn Landspítalans væru smitaðir, sem væri íþyngjandi fyrir heilbrigðisstofnanirnar.
Í svari sínu sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hans mat vera að afnema ekki reglur um einangrun á morgun.
„Nú er megin spurningin á þessum viðkvæma tímapunkti hvort að við eigum, eins og boðað er í skrefi tvö, að hætta með einangrun og sóttkví.
Ég segi það bara hér og nú af því að við vorum að breyta einangruninni á mánudaginn, að við eigum að halda í hana, það er mitt mat,“ sagði Willum í svari sínu.
Hann sagði að í samtölum sínum við heilbrigðisstofnanir hefði það komið fram að mikilvægasta verkfærið í dag til að tempra útbreiðslu faraldursins væri einangrun.
Hann sagði hins vegar það vera orðið snúið að meta hversu mikið fjöldatakmarkanir og klukkutímar í opnun veitingastaða hafi áhrif á að verja heilbrigðisstofnanirnar.