Kjartan Magnússon, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að sveitarfélögum verði gefið meira svigrúm en nú til að ákveða fjölda kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum sínum.
Hann hyggst leggja til frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem heimilar slíkt svigrúm. Í tilviki Reykjavíkurborgar verði afnumin sú skylda að hafa 23 borgarfulltrúa. Það verði einungis heimild þannig að borgarstjórn geti sjálf ákveðið hvort hún vilji hafa borgarfulltrúana 23 eða 15 eins og tíðkaðist lengi vel. Þetta kom fram í ræðu hans á Alþingi í gær.
„Fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík um 53 prósent, úr 15 í 23, hefur engu skilað nema stærra bákni, auknum kerfiskostnaði og þá hefur óráðsían í rekstri borgarinnar aukist,“ sagði Kjartan á Alþingi í gær. Breytingin muni ekki bara hafa áhrif á Reykjavík.
„Þetta ákvæði hefur einnig haft áhrif til fjölgunar bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og Garðabæ, í fullkominni óþökk þeirra bæjarstjórna. Þessu þarf að breyta og gefa sveitarstjórnum meira vald til að ákveða sjálfar hversu stórt eða lítið stjórnsýslubáknið á að vera.“