200 mega koma saman – sóttkví afnumin

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti um afléttingarnar rétt í þessu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tilkynnti um afléttingarnar rétt í þessu. mbl.is/Gunnhildur

Verulegar afléttingar á samfélagslegum takmörkunum vegna heimsfaraldurs Covid-19 taka gildi á miðnætti. Sóttkví verður afnumin með öllu og almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 200 manns.

Þetta tilkynnti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra rétt í þessu að ríkisstjórnarfundi loknum. 

Tæplega 10 þúsund losna í dag

9.712 manns, sem nú sæta sóttkví, munu þannig losna við gildistöku reglugerðarinnar, þegar hún verður birt í stjórnartíðindum í dag. Áfram verður krafist að útsettir fari varlega og viðhafi persónulegar sóttvarnir. Þá mun fólk með staðfest Covid-19 smit áfram sæta fimm daga einangrun.

Á undan áætlun

Upphaflega stóð til að skref tvö í afléttingaráætlun stjórnvaldi yrði tekið eftir tvær vikur, 24. febrúar. 

Þúsund manns mega vera í hverju hólfi á sitjandi viðburðum og áfram verður gerð krafa um að fólk beri grímur þar sem ekki er hægt að viðhafa 1 meters nándarreglu. Þá verður heimilt að halda hlé og selja veitingar án takmarkana.

Barir og skemmtistaði mega þá hafa opið til miðnættis og taka á móti fólki, síðustu gestirnir skulu yfirgefa staðinn fyrir klukkan eitt. Fjöldatakmarkanir utandyra falla á brott.

Fá loksins skólaböll

Skólareglugerð sem er í gildi um grunn- og framhaldsskóla fellur úr gildi. Heimilt verður að halda skólaskemmtanir án nokkurra takmarkana.

Aðrar breytingar sem taka gildi á miðnætti eru að fjöldatakmarkanir í verslunum falla á brott. Þá verður sund- og líkamsræktarstöðvum sem og skíðasvæðum er heimilt að taka á móti gestum með fullum afköstum. Íþróttakeppnir og æfingar verða heimilar með 200 manns í hólfi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert