Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til þrjá valkosti í minnisblaði sínu til ríkisstjórnar um tilslakanir í sóttvörnum, öðru skrefi í afléttingaráætlun.
Sem fyrr var millileiðin valin af stjórnvöldum, enda heilbrigðisráðherra mikill miðjumaður.
Sá fyrsti hljóðaði upp á óbreyttar takmarkanir til 24. febrúar, líkt og upphaflega var gert ráð fyrir. „Það myndi lágmarka álagið á heilbrigðiskerfið en á sama tíma veita tíma til að auka ónæmi í samfélaginu gegn Covid-19. Hins vegar er erfitt að segja hversu mikið óbreyttar takmarkanir myndi skila í fjölda smita umfram þær afléttingar sem nefndar eru hér að neðan,“ segir í rökstuðningi í minnisblaði sóttvarnalæknis.
Annar valkosturinn er sá sem varð fyrir valinu, og hefur nú verið kynntur, með nokkuð miklum tilslökunum, afnámi sóttkvíar og 200 manna samkomutakmörkum.
„Stefnt verði að fullri afléttingu takmarkana u.þ.b. tveimur vikum síðar ef ekkert óvænt kemur upp eins og til dæmis versnandi staða innan heilbrigðisþjónustunnar,“ segir í útskýringum valkosts númer tvö.
Þriðja leiðin var Þórólfur lagði til var algjör aflétting allra takmarkanna.
„Aflétting allra takmarkana myndi án nokkurs vafa valda verulegri aukningu í fjölda smita í samfélaginu þar til að hjarðaónæmi yrði náð. Það myndi gerast á styttri tíma en ef takmörkunum yrði beitt en óvíst hversu langan tíma það myndi taka. Afleiðingin yrði þannig mikill fjöldi daglegra smita með miklu álagi á heilbrigðiskerfið og ýmsa starfsemi með ófyrirséðum afleiðingum. Ef þessi leið verður valin þá þurfa stjórnvöld að vera tilbúin til að grípa til aðgerða ef neyðarástand skapast á heilbrigðisstofnunum,“ útskýrir Þórólfur í minnisblaðinu.