Annað skref afléttinga líklega kynnt í dag

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annað skref afléttingaráætlunar stjórnvalda á samfélagslegum takmörkunum vegna Covid-19 verður að öllum líkindum tilkynnt í dag, tveimur vikum fyrr en upphaflega stóð til. 

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði fyrir viku síðan þetta líklega verða niðurstöðuna, sem síðan gæti leitt til algjörra afléttinga um mánaðamótin.

Líklegt þykir að tillögur þess efnis verði ræddar á ríkisstjórnarfundi í dag og síðan kynntar í framhaldinu.

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu.
Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu. mbl.is/Karítas

Ekki komið að afnámi einangrunar

Skref tvö í aðgerðaáætl­un­inni sem kynnt var fyr­ir viku átti að taka gildi 24. fe­brú­ar. Þar var gert ráð fyr­ir að hækka fjölda­tak­mark­an­ir úr 50 í 200 manns og að á sitj­andi viðburðum verði heim­ilt að hafa þúsund manns í hólfi.

Þá átti að heim­ila sund­stöðum, skíðasvæðum og lík­ams­rækt­ar­stöðvum að hafa opið fyr­ir 100% af há­marks­fjölda. Einnig að íþrótta­keppn­ir með þúsund áhorf­end­um verði heim­ilaðar og veit­ingastaðir og krár fái að hafa opið til miðnætt­is og hleypa fólki inn til miðnætt­is.

Willum Þór sagði þó á Alþingi í gær aðspurður að hann hygðist ekki afnema skyldu til þess að sæta einangrun þeirra sem greinast með Covid-19. Einangrunartími var nýlega styttur í fimm daga í stað sjö en þeir voru upphaflega fjórtán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka