Fella niður grímuskyldu í öllum verslunum

Grímuskylda verður afnumin í verslunum Krónunnar á morgun.
Grímuskylda verður afnumin í verslunum Krónunnar á morgun.

Frá og með morgundeginum, laugardeginum 12. febrúar, verður valkvætt að bera grímu í verslunum Krónunnar. Þetta segir Ásta S. Fjeldsted framkvæmdastjóri Krónunnar í samtali við mbl.is.

Hún segir mikla ánægju ríkja með ákvörðunina eftir að hafa tilkynnt um hana á samfélagsmiðlum verslanakeðjunnar í dag.

„Við hvetjum þó alla sem vilja bera grímu til að gera það áfram og ítrekum eins metra regluna. Annars erum við að fá mikla hvatningu og þakkir frá viðskiptavinum og skila ég þeim áfram til stjórnvalda fyrir að taka þessa ákvörðun,“ segir Ásta.

„Valkvæð grímuskylda hefur gengið vel áður og við treystum okkar viðskiptavinum og starfsfólki að gæta áfram að sóttvörnum í hvívetna.“

Ásta S. Fjeldsted framkvæmdastjóri Krónunnar.
Ásta S. Fjeldsted framkvæmdastjóri Krónunnar.

Gríðarlegur léttir fyrir starfsfólk

Sú regla sem gildir nú um grímunotkun er að bera þurfi grímu ef ekki er hægt að halda eins metra fjarlægð. Ásta segir verslanir Krónunnar allar rúmgóðar og vel loftræstar svo auðvelt sé að viðhalda eins metra fjarlægð eins og reglurnar kveða á um.

Hún bætir við að þetta sé gríðarlegur léttir fyrir starfsfólk Krónunnar sem er orðið langþreytt á því að bera grímu í oft líkamlega erfiðri vinnu, en nú hefur grímuskylda í búðum Krónunnar verið meira og minna í tvö ár.

Líklegt að fleiri verslanir fylgi í kjölfarið

Krónan hefur áður verið fyrsta verslanakeðjan til þess að aflétta grímuskyldu og Ásta býst við að aðrar verslanir fylgi í kjölfarið eins og síðast.

„Starfsfólk okkar mun áfram hafa aðgengi að grímum og sjálfsprófum því að kostnaðarlausu og við höldum áfram með sóttvarnaaðgerðir, til að mynda að spritta á milli afgreiðslna í sjálfsafgreiðslu og tryggja aukin þrif eins og við höfum gert í þessu ástandi,“ segir Ásta og áréttar að öllum sé áfram heimilt að bera grímu í verslunum Krónunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert