Fljúga frá Amsterdam til Akureyrar

Flugvél Transavia.
Flugvél Transavia.

Fyrsta leiguflugvél Voigt Travel lenti í morgun á Akureyrarflugvelli. Ferðaskrifstofan mun bjóða upp á flug á föstudögum og mánudögum næstu fimm vikur.

Flogið verður frá Amsterdam í Hollandi og flugfélagið Transavia annast flugið. Ferðaskrifstofan mun í sumar bjóða upp á vikulegt flug til Akureyrar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Ferðaþyrstir Norðlendingar þurfa þó ekki að örvænta, þar sem Ferðaskrifstofa Akureyrar mun halda úti ferðum frá Akureyrarflugvelli til Amsterdam.

Gríðarlega mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna  

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í tilkynningunni að þessar ferðir séu gríðarlega mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi og ánægjulegt sé að Voigt Travel skuli aftur hefja flugferðir til Akureyrar.

Ferðskrifstofan bauð upp á ferðir til Akureyrar sumarið 2019 en flugferðir ferðaskrifstofunnar lögðust af þegar heimsfaraldurinn hófst 2020.

„Eftir langvarandi neikvæð áhrif heimsfaraldursins eru þetta jákvæðar fréttir sem fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa á að halda. Þetta hvetur okkur öll sem störfum í greininni til að líta björtum augum til framtíðar,“ segir Arnheiður í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka