Rafrænt flokksval Samfylkingarinnar í Reykjavík verður haldið nú um helgina. Sextán manns eru í framboði, en hins vegar er ekki hægt að segja að fyrir dyrum standi hörð barátta, þar sem sex núverandi borgarfulltrúar gefa kost á sér og þykja hafa nokkurt forskot.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sækist einn eftir 1. sæti, en Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins, er einnig ein um að sækjast eftir 2. sæti. Um þriðja sætið bítast borgarfulltrúarnir Hjálmar Sveinsson og Skúli Helgason en aðrir ekki. Hinir frambjóðendurnir keppa svo um 4.-6. sæti.
Viðmælendur blaðsins telja Skúla mun sigurstranglegri í 3. sætið, en að Hjálmar falli varla langt. Eins að Aron Leví Beck, Ellen Calmon og Sabine Leskopf séu sennileg í næstu sæti, þótt Pétur M. Urbancic, forseti Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík, kunni að setja strik í þann reikning. Enginn gerir hins vegar ráð fyrir neinni byltingu, listinn verði áþekkur því sem hann er nú. Einn viðmælandi Morgunblaðsins gekk svo langt að segja að litlu skipti í hvaða röð menn yrðu, svo framarlega sem Dagur væri í 1. sæti.
Framboðsmál Samfylkingarinnar í Reykjavík ber þó að skoða í stærra samhengi. Dagur tók sér góðan tíma til þess að ákveða hvort hann færi fram, svo það var greinilega ekki sjálfgefið. Framhaldið veltur vitaskuld mjög á kosningaúrslitum í vor, en ekki síður hvernig gengur að mynda meirihluta.
Minna má á Samfylkingin fékk skell í kosningunum 2018, missti fimmtung fylgis frá fyrri kosningum; fór úr 31,9% í 25,9% atkvæða. Ekki liggja margar eða nýlegar skoðanakannanir fyrir um fylgi í borginni, en þær benda a.m.k. ekki til þess að fylgi Samfylkingarinnar hafi aukist. Þrátt fyrir að hún teldi sig vera á siglingu fyrir þingkosningarnar, fékk hún aðeins tæp 13% í Reykjavíkurkjördæmunum, höfuðvígi flokksins.
Jafnvel þó svo Dagur næði tvöföldu því fylgi og næði einnig að berja saman meirahluta annara flokka um sig, þá gera fáir Samfylkingarmenn ráð fyrir að hann sitji næsta kjörtímabil á enda, hvort sem hann hyggst kveðja stjórnmálin eða færa sig yfir í landsmálin.
Prófkjörið um helgina gæti því haft áhrif á það hver verður næsti borgarstjóri (verði Samfylkingin í þeirri stöðu þá), en heimildarmenn innan flokksins segja alls ekki gefið að það verði 2. maður á lista.
Inn í það kunna svo einnig að blandast forystumál Samfylkingarinnar á landsvísu. Logi Einarsson er sá formaður flokksins, sem lengst hefur setið, en eftir dræm kosningaúrslit liðið haust blandast fáum hugur um að flokkurinn þurfi nýja forystu. Margir hafa nefnt Dag, en vandinn er sá að formaðurinn þarf eiginlega að vera á þingi.
Kristrún Frostadóttir hefur farið mikinn síðustu vikur en formaðurinn ekki og í gær hóf hún fundaherferð sína um landið og hvar annars staðar en í Borganesi?! Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður, lýsti hrifningu sinni á Facebook og spyr hvað „Samfylkingin [ætli] að bíða lengi með að gera hana að formanni?“ Þegar slíkar kanónur hafa afskrifað formanninn opinberlega getur þess vart verið langt að bíða og spurningin hvort Dagur sé búinn að missa af þeim strætó.
1. Dagur B. Eggertsson
2. Heiða Björg Hilmisdóttir
3. Hjálmar Sveinsson
3. Skúli Helgason
3.-4. Sabine Leskopf
3.-5. Guðmundur Ingi Þóroddsson
4. Ellen Calmon
4.-6. Aron Leví Beck
4.-6. Guðný Maja Riba
4.-6. Ólöf Helga Jakobsdóttir
4.-6. Sara Björg Sigurðardóttir
5. Birkir Ingibjartsson
5. Þorkell Heiðarsson
5. Þorleifur Örn Gunnarsson
5.-6. Pétur M.Urbancic
5.-6. Stein Olav Romslo