Aðstæður núna eru um margt líkar þeim sem voru á árunum fyrir hrun að mati Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands. Henni þykja blikur á lofti um aðbúnað, kjör og lífsgæði fólks.
„Á meðan hitastigið vegna stjórnarkjörs Eflingar hækkar og ásakanir og gífuryrði ganga á víxl tilkynnir Seðlabankinn um vaxtahækkun sem mun rýra kjör skuldsettra heimila.“
Drífa lýsir áhyggjum sínum af ástandinu í pistli sem ber yfirskriftina „2007... taka tvö?“
Þar gagnrýnir hún meðal annars „gríðarlegan hagnað bankanna“ og að sá hagnaður skili sér ekki til samneyslunnar nema í gegnum eignarhlut ríkisins á Landsbankanum.
„Einhverjir héldu jafnvel að skattfrelsi bankana myndi skila sér til viðskiptavina þeirra, en því hefur sannarlega farið fjarri, eins og bæði vaxtamunurinn og þjónustugjöld segja til um. Afkomutölur bankanna sýna hversu mikil mistök þetta voru fyrir almenning“
Stef í samfélaginu minna á aðdraganda hrunsins, að mati Drífu. „Bankasala og ofurbónusar og í viðskiptafréttum má lesa um áhyggjur af því að að fyrirtæki erlendis séu að bera víurnar í okkar afburða viðskiptasnillinga og því þurfi þeir hærri laun og meiri bónusa.“
Hún gagnrýnir að á sama tíma hafi launafólk í þessum sömu fyrirtækjum tekið á sig óvissu, álag og kjaraskerðingar í gegnum lækkað starfshlutfall eða vegna uppsagna og endurráðninga á lakari kjörum.
Orð Drífu koma í kjölfar fréttaflutnings af því að stjórn Icelandair hyggist leggja fram tillögu, á næsta aðalfundi, sem lýtur að því að koma upp hvatakerfi fyrir lykilstarfsmenn félagsins, þannig að þeir geti fengið allt að 25 prósent bónusgreiðslur ofan á laun sín auk kaupréttar að hlutabréfum í félaginu.
Þá lýst Drífu heldur ekki á hugmyndir um að opna fyrir einkarekstur í velferðarþjónustu. „Nú heitir þetta: „Það skiptir ekki máli hver veitir þjónustuna“. Jú það skiptir máli og við vitum afleiðingarnar af því að fjármagnseigendur eigi að sinna grunnþörfum.“ Heilsa, lífslíkur og velferð verði með þessu sífellt tengdara stétt og fjárhag.
„Kjarasamningar eru lausir í haust en fyrir þann tíma þarf að grípa þau heimili sem eru í mestum vanda, hafa ekki notið kjarabóta eða þurft að taka á sig stóraukin útgjöld. Verkalýðshreyfingin er sterkasti málsvari vinnandi fólks og alls almennings. Félagar í stéttarfélögum eiga heimtingu á þau sem eru kjörin til verka að við beitum baráttuafli okkar þar sem þess er þörf en ekki hvert gegn öðru. Stærstu sigrarnir og mestu lífsgæðin koma með samstilltri hreyfingu“