Reykjavíkurborg hefur tilkynnt að nú styttist í útboð og framkvæmdir á fyrsta áfanga á Hlemmi ásamt Rauðarárstíg, frá Bríetartúni að Hverfisgötu. Reykjavíkurborg og Veitur hyggjast kynna og upplýsa borgarbúa og hagsmunaaðila um næstu skref.
Reykjavíkurborg efndi í lok árs 2017 til hugmyndaleitar Hlemmsvæðisins. Þremur arkitektastofum var boðið að taka þátt í verkefninu, sem fólst í því að ímynda sér Hlemm framtíðarinnar.
Athygli vakti að í öllum þremur tillögunum var ekki gert ráð fyrir akstri bíla niður Laugaveg við Hlemm, eins og verið hafði í áratugi. Strætisvögnum og borgarlínu verður beint niður Hverfisgötu og Laugaveg í sérrými gegnum nýtt torgsvæði norðan Hlemms.
Hönnunartillögur Mandaworks í Svíþjóð og DLD – Dagný Land Design urðu fyrir valinu árið 2018 og unnin var áframhaldandi hönnun á Hlemmi. Yrki arkitektar unnu deiliskipulag að svæðinu í samstarfi við Reykjavíkurborg og hönnuði svæðisins.
Fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar að breytingin nái til lóða og almenningsrýma sem eru í eigu borgarinnar. Stækka á Hlemmtorg með því að breyta umferð um svæðið.
„Tilgangur breytinga er að ná utan um framkvæmdasvæðið sem fylgdi breytingum á gatnamótum Borgartúns við Snorrabraut og framlengingu hjólastíga yfir Sæbraut,“ segir í tilkynningunni.
Það sem er á döfinni á árinu 2022 er kafli á Laugavegi, svokallaður snákur, sem myndar afmarkað svæði með gróðri, setsvæðum, hjólastæði og óformlegum leikrýmum. Fyrsti áfanginn, sem verður framkvæmdur í sumar, nær frá Snorrabraut að húshorninu til móts við Hlemm Mathöll.
„Stálprófíll sem rís og hnígur er leiðandi þáttur á þessum kafla en í honum er einnig falin óbein lýsing á völdum svæðum og afmarkar hann þjónustuleiðir í göturýminu. Yfirborð snáksins er myndað með náttúrusteini, en leiðin þjónar einnig hlutverki blágrænna ofanvatnslausna. Sólarmegin á Laugaveginum er gert ráð fyrir að veitingastaðir geti vaxið út í göngurýmið,“ segir í lýsingu á verkefninu.
Rauðarárstígur frá Grettisgötu að Hlemmi er sólrík gata og í tillögunni er gert ráð fyrir setsvæðum og leikmöguleikum í átt að torgsvæðinu. Lítil hestahjörð stefni að torginu en það eru hreyfanlegir abstrakt hestar sem mynda m.a set- og leiksvæði. Veitinga- og þjónustufyrirtæki geti einnig vaxið út í göngurýmið, eins og það er orðað.
VSÓ ráðgjöf, í samstarfi við Reykjavíkurborg, hannaði yfirborðs- og gatnahönnun fyrir Rauðarárstíg, norður af Hlemmi. Svæðið er hannað sem vistgata, er í einum fleti og allt rýmið verður hellulagt.
Meðal breytinga má nefna:
• Gatnamót við Bríetartún verða upphækkuð og akstursrými afmarkað með lágum kantsteini.
• Rauðarárstígur verður lokaður til suðurs við Gasstöðina og með snúningshaus fyrir fólksbíla í botni götunnar.
• Meðfram húsaröð við Rauðarárstíg er aðkomusvæði íbúðarhúsanna þar sem útfæra má í samráði við húseigendur rampa að inngangi. Við jaðar bygginganna er gert ráð fyrir grænu gróðursvæði að hluta sem skapi mjúka ásýnd og geti orðið dvalarsvæði fyrir íbúana. Bekkir og klakkar afmarka svæðið næst húsunum.
• Götutré verða gróðursett í trjárist meðfram götunni og regnbeð með fjölbreyttum gróðri.
• Lýsing í götunni verður með 4-5 metra háum miðborgarlömpum. Götugögn, s.s. bekkir og hjólagrindur, verða í samræmi við götugagnastefnu Reykjavíkurborgar.
• Næst torgsvæðinu og Hlemmi verður komið fyrir stæðum fyrir hreyfihamlaða.