Kennsl hafa verið borin á lík fjögurra karlmanna sem létust í Þingvallavatni á fimmtudaginn í síðustu viku, er flugvél sem þeir voru um borð í fórst. Björgunarliði tókst að ná líkum þeirra allra upp úr vatninu í gær.
Líkin voru flutt til Reykjavíkur og komið þar fyrir í kapellu þar sem aðstandendur komu og báru kennsl á sitt fólk og áttu stund með þeim. Í framhaldi af því voru líkin flutt til krufningar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Tekin var ákvörðun um að nota fjarstýrðan kafbát til að færa líkin upp til móts við kafara í gær og gengu þær aðgerðir afar vel. Í tilkynningu frá lögreglu segir að ætlunin hafi verið að kafarar byggju um líkin á botninum til að tryggja að allir þeir munir sem væru á þeim væru tryggðir, og lyfta þeim svo upp. En við þær aðstæður sem voru á vettvangi í gær og þá stöðu að þurfa að vera með báta á vatninu til að halda því opnu, þótti ekki rétt að eyða dýrmætum tíma í það.
Eftir skoðun í gærkvöldi virðist það ekki hafa haft áhrif á mikilvæga þætti við öflun gagna, að segir í tilkynningunni. Aðgerðum á vatninu lauk um kvöldmatarleitið í gær.