Hallfríður Nanna Franklínsdóttir lést á sjúkrahúsinu á Siglufirði í morgun, 105 ára að aldri. Hún hafði verið elst núlifandi Íslendinga eftir að Dóra Ólafsdóttir féll frá 4. febrúar síðastliðinn, á 110. aldursári.
Nanna var fædd 12. maí árið 1916 á bænum Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu. Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson frá Stóra-Fjarðarhorni í Strandasýslu og Andrea Jónsdóttir frá Miðhúsum í Kollafirði. Franklín lést árið 1940, 61 árs að aldri en Andrea var 97 ára er hún lést 1979 á Siglufirði. Þau eignuðust 13 börn en níu þeirra náðu meira en 90 ára aldri. Eftirlifandi systir Nönnu er Margrét, sem varð 100 ára 10. janúar sl. en hún dvelur á sjúkrahúsinu á Siglufirði.
Eiginmaður Nönnu var Baldvin Guðjónsson, sjómaður og verkamaður ættaður úr Svarfaðardal. Gengu þau í hjónaband árið 1946. Þau voru barnlaus en Baldvin átti fyrir eina dóttur. Hann lést árið 1975, 77 ára að aldri.
Fram kom í viðtali í Morgunblaðinu við Nönnu er hún varð 100 ára að hún hefði mest unnið í síld og fiski er hún kom til Siglufjarðar. Í ein 14 ár ráku þau Baldvin verslun, sem í fyrstu hét ekki neitt. „Það var alltaf verið að spyrja mig af hverju verslunin héti ekki neitt. Ég svaraði því til að við værum svo fátæk í anda hér fyrir norðan. En að endingu fékk hún svo nafnið Búrið,“ sagði Nanna við Morgunblaðið. Hún gat sér einnig gott orð fyrir prjónaskap og seldi lengi svonefndar Franklínshúfur, sem nutu mikilla vinsælda bæði hér á landi sem erlendis.