Landsréttur hefur staðfest þriggja ára fangelsisdóm yfir Reebar Abdi Mohammed vegna nauðgunar á kvennasalerni skemmtistaðar árið 2019. Landsréttur ákvað hins vegar að lækka bætur sem Reebar hafði verið dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu úr þremur milljónum í tvær milljónir.
Reebar áfrýjaði dómi héraðsdóms og vísaði meðal annars til þess að villur hefðu verið í túlkun framburðar hans við skýrslutöku hjá lögreglu og í dómsal og það hafi orðið til þess að framburður hans hafi virst misvísandi, en til þess var vísað í forsendum héraðsdóms. Landsréttur taldi hins vegar eftir athugasemdir túlksins að ekki væru efni til þess að verða við kröfu mannsins um sýknu vegna þessa.
Í dómi héraðsdóms var farið yfir málsatvik. Reebar er sagður hafa komið að konunni þar sem hún stóð fyrir framan salerni á skemmtistaðnum. Kysst hana, leitt inn á salerni, lagt hönd hennar að kynfærum sínum, stungið fingri inn í leggöng áður en hann reyndi að þvinga lim sínum inn í leggöng hennar. Síðan að hafa reynt að fá konuna til að hafa við sig munnmök en þá komst konan undan. Meðan á þessu stóð greip Reebar um hár konunnar sem reyndi ítrekað að fá manninn af háttsemi sinni.
Konan fór á bráðamóttöku strax um nóttina þar sem meðal annars komu fram áverkar á kynfærasvæði konunnar. Að sögn konunnar komu þeir við það þegar hún reyndi að klemma saman lærin þegar Reebar reyndi að hafa við hana samræði. Þá þótti hátterni konunnar á bráðamóttöku sýna að manneskjan var í uppnámi og þótti frásögn hennar trúanleg.
Reebar neitaði sök en viðurkenndi að hafa verið á skemmtistaðnum. Sagði hann að konan hefði kysst hann og viljað hafa við hann samræði á salerni skemmtistaðarins. Hann hefði ekki verið með smokk og því ekki viljað það. Hann hefði veitt henni munnmök auk þess að koma við brjóst hennar og stinga fingri í leggöng. Hún hefði sjálf afklæðst inni á salerninu.
Í málinu var meðal annars notast við myndbandsupptökur úr eftirlitskerfi staðarins sem sýndi fram á annað en Reebar hélt fram.