Snýst um að fólk vandi sig

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Gunnhildur

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að hátt smithlutfall þjóðarinnar ásamt háu bólusetningarhlutfalli geri okkur hreinlega kleift að opna samfélagið í lok mánaðarins.

„Við náttúrulega sjáum fyrir okkur að verulegur fjöldi þjóðarinnar verði búinn að smitast og vonandi mun það ásamt þessu mikla bólusetningarhlutfalli, þar sem við stöndum náttúrulega mjög framarlega, hvort sem litið er til bólusettra eða örvunarskammts, gera okkur þá bara kleift hreinlega að opna samfélagið,“ segir Katrín.

Erum í þriðja fasanum

Þá segist Katrín líta svo á að við séum í þriðja fasanum. Fyrst þegar veiran kom til landsins að þá hafi verið byggt á þeirri aðferðafræði að bæla niður veiruna. Síðan, frá því í sumar, var farið yfir í temprunarleið en nú sé verið að stíga skærri skref til opnunar.

„Mikilvægasta skrefið núna til að opna samfélagið er þessi breyting á sóttkvínni og að gera ekki lengur kröfur um PCR-próf eftir smitgát,“ segir Katrín og bætir við:

„Í raun og veru snýst þetta bara um að fólk vandi sig en ekkert annað. Þannig þetta er auðvitað svolítið eðlisbreyting á aðferðafræðinni.“

Katrín bendir þó að afléttingar á sóttkví séu þó líklega ekki sú breyting sem komi til með að hafa hvað mest áhrif á framhaldsskólanemana. Það mun vera niðurfelling skóla­reglu­gerðar sem er í gildi um grunn- og fram­halds­skóla og því verður heim­ilt að halda skóla­skemmt­an­ir án nokk­urra tak­mark­ana. Katrín sagðist vera viss um að framhaldsskólanemendurnir munu gleðjast mjög yfir afléttingunum.

Ólíkar raddir um hversu hratt eigi að fara í afléttingar

Var samstaða í ríkisstjórn um afléttingarnar?

Það er náttúrulega mjög mikil samstaða um að grípa til afléttinga núna. Ég myndi segja að það væru ólíkar raddir uppi um hvers hratt eigi að fara í þær. Hvað varðar mína afstöðu er ég algjörlega sammála heilbrigðisráðherranum um að gera þetta í skrefumÉg held að það skipti máli vegna þess að við erum að fara út úr mjög afbrigðilegu ástandi,“ segir Katrín. 

Hún bætir við að til að mynda sé verið að fylgja ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að aflétta í skrefum, „hreinlega til þess að smitfjöldinn verði ekki yfirþyrmandi.“ 

Við vissum að þeim sem myndu smitast myndi fjölga þegar við boðuðum afléttingar og það hefur gengið eftir,“ segir Katrín og bætir við að þrátt fyrir að innlagnarhlutfall sé mjög lágt og við séum ekki að sjá mikil veikindi, sem betur fer, þá væru þetta auðvitað ákveðin þyngsli og sérstaklega fyrir heilbrigðisstofnanir vegna mikilla veikinda.

Breytinga að vænta á landamærum

Aðspurð segir Katrín að vænta megi breytinga á landamærunum bráðlega. „Núverandi reglugerð gildir til 28. febrúar og við eigum von á tillögum um breytingar á landamærum um miðjan mánuðinn sem gæti orðið í næstu viku eða þarnæstu og ég hef þá væntingar til þess að það verði ráðist í afléttingar,“ segir Katrín.

Katrín bendir þó á að skoða þurfi ólíkar reglur fyrir bólusetta og óbólusetta. „Eitt af því sem við erum að gera núna er að rýna landamærareglur í Evrópu þar sem víða er gerður greinarmunur á ferðalögum bólusettra og óbólusettra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka