Starfsmenn HÍ mótfallnir spilakössum

Spilafíkn er skilgreind sem sjúkdómur í sjúkdómaskrá WHO og landlæknisembættisins.
Spilafíkn er skilgreind sem sjúkdómur í sjúkdómaskrá WHO og landlæknisembættisins. mbl.is/Árni Sæberg

Prófessor við Háskóla Íslands telur ótækt að skólinn haldi áfram fjáröflun með rekstri spilakassa. Hann segir spilafíkn alvarlegan sjúkdóm sem leggi líf einstaklinga og fjölskyldna í rúst í miklum mæli.

Hann segir spilakassana hannaða til þess að hafa sem mestan pening af fólki og að mikil bót væri falin í því að loka þeim. 

Kristján Jónasson, prófessor í stærðfræði við HÍ, er hluti af ellefu manna hópi sem hefur komið á fót undirskriftasöfnun meðal starfsmanna þar sem þess er krafist að háskólinn hætti að hagnast af spilakössum sem eru reknir á hans vegum.

Hafa um 300 starfsmenn HÍ skrifað undir og vill Kristján fá enn fleiri í hópinn.

Kristján Jónasson prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands.
Kristján Jónasson prófessor í stærðfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Leggi líf fólks í rúst

Hann segir ýmis rök fyrir því að hætta eigi rekstri spilakassa en efst í huga eru lífin sem þeir hafa lagt í rúst, bæði einstaklinganna sem eru háðir kössunum og fjölskyldna þeirra. Þá megi rekja mikinn fjölda sjálfsvíga til fíknarinnar.

Fjöldinn allur af rannsóknum hafi sýnt fram á skaðsemi spilakassa og hefur hann sjálfur hugsað sér að ráðast í frekari rannsóknir til að varpa ljósi á alvarleika spilafíknar sem er skráð sem sjúkdómur í sjúkdómaskrá Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og landlæknisembættisins.

Vill auka eftirlit

Aðspurður kveðst hann ekki geta tekið undir þau rök sem haldið hefur verið á lofti að með því að loka kössunum muni fólk með spilafíkn leita á önnur mið, m.a. ólöglegar veðmálasíður á netinu. Telur hann það ólíklega framvindu og segir rökin ódýra afsökun fyrir því að halda rekstri spilakassanna gangandi.

Að því sögðu telji hann þó mikilvægt að auka eftirlit með netspilamennsku. Gætu Íslendingar þá m.a. farið að fordæmi Norðmanna þar sem greiðsla með kortum hefur verið takmörkuð á erlendum veðmálasíðum.

Fyrsti listinn fór af stað fyrir fimm árum

Upphaflega hóf Kristján undirskriftasöfnunina gegn rekstri spilakassanna fyrir fimm árum og var hún þá öll skrifleg. Fékk hann þá um fimmtung starfsmanna til að skrifa undir en hann vonaðist þó til að fá fleiri með sér í lið. 

Spurður hvernig samstarfsfólkið hefur tekið í þessar hugmyndir, segir hann marga taka í sama streng. Hafi hann upphaflega lagt af stað í söfnunina vegna þess. Aftur á móti séu ávallt einhverjir sem séu ósammála.  

Prófessorinn kom undirskriftarsöfnuninni sem nú er í gangi á fót í júní síðastliðinn og fer sú söfnun fram með rafrænum hætti. 

Um 300 hafa nú sett nafnið sitt á listann en Kristján segir ástandið í faraldrinum hafa hægt á söfnuninni enda sé erfiðara að ná til fólks á vinnustaðnum þegar svo fáir eru í húsi. Bindur hann vonir við að fá fleiri með sér í lið þegar búið sé að aflétta samkomutakmörkunum enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert