Stefnt að fullri afléttingu í lok mánaðar

Willum Þór Þórsson kynnir afléttingar.
Willum Þór Þórsson kynnir afléttingar. mbl.is/Gunnhildur

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að vel hafa gengið að ráða við stöðuna og betur en horfði við þegar ríkisstjórnin mat afléttingar fyrir hálfum mánuði síðan. Þá hafi jafnframt verið tekið fram að ef efni stæðu til að aflétta fyrr þá yrði það gert.

Willum tilkynnti fyrr í dag, að loknum ríkisstjórnarfundi, um verulegar aflétt­ing­ar á sam­fé­lags­leg­um tak­mörk­un­um vegna heims­far­ald­urs Covid-19. Upphaflega stóð til að fara ekki í frekari afléttingar fyrr en 24. febrúar.

Sóttkví var í dag afnumin með öllu og ekki er lengur skylt að sæta smitgát þó það sé hvatt til þess. Smitaðir þurfa þó enn að vera í einangrun.Þá mega 200 manns koma saman frá og með miðnætti.

„Þetta er auðvitað bara gleðiefni fyrir okkur öll af því þetta tekur á allt samfélagið,“ segir Willum. 

Fullsnemmt að segja til um einangrun

Þá segir Willum að stefnt sé að fullri afléttingu í lok mánaðarins. „Ég bind bara vonir við það að það verði staðan,“ segir Willum. Reglurnar sem taka gildi á miðnætti gilda að sögn Willum í tvær vikur eða til 25. febrúar. Má þá ætla að á Íslandi verði þá takmarkalaust samfélag.

Spurður að því hvenær sé áætlað að aflétta einangrun ítrekar Willum að stefnt sé að því að aflétta öllu í lok mánaðarins. Hann segir þó kannski fullsnemmt að segja til um það hvenær nákvæmlega einangrun verði aflétt. „Við höldum áfram að halda utan um stöðuna því að  þetta er nú kannski ekki alveg búið um mánaðamótin þó við afléttum,“ segir Willum.

Ráðherrabústaðurinn.
Ráðherrabústaðurinn. mbl.is/Gunnhildur

Willum segir afléttingarnar í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem komu fram þegar afléttingaráætlun var kynnt fyrir tveimur vikum. Hann hafi lagt upp þrjár leiðir og ákveðið var að fara leið tvö.

Þróun smita sú sama og annars staðar

Aðspurður hvort fjöldi smita í vikunni hafi haft áhrif á ákvörðunina segir Willum að fjölgun smitanna sé sama þróun og er að sjást annars staðar í heiminum.  

„En auðvitað metum við það og það er auðvitað mín skylda að meta hvern dag í samráði við heilbrigðisstofnanir í landinu þannig að þær ráði við stöðuna og svo fáum við uppfært mat á viðbúnaðarstig frá landlækni reglulega,“ segir Willum og bætir við:

„Heilbrigðiskerfið og starfsfólkið hefur staðið sig feykilega vel og ræður við stöðuna. En hún er viðkvæm og þess vegna erum við að þessu í skrefum.“ 

Þá sagði Willum að ákvörðun um afléttingar hefði verið tekin í samstarfi við spítalann. „Við tölum saman hvernig einasta dag,“ sagði hann. 

Skilur afstöðu Más

Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans, sagði í viðtali við mbl.is í gær að staðan á Lands­spít­ala vera mjög erfið. Helst vegna þessu hversu margir starfsmenn eru frá störfum. Honum leist ekki vel á að farið yrði í afléttingar í dag.

Willum segist skilja afstöðu Más mjög vel. Enda sagði hann það skyldu Más að horfa bæði til þess að þjónusta þá sem leggjast inn vegna Covid og þá sem smitast inni á deildum. Þá væri það einnig skylda heilbrigðisstofnana að halda uppi annarri þjónustu. Willum bætir við að til þess horfi hann reglulega.

Símar ráðherranna bíða eftir þeim fyrir utan fundarherbergið.
Símar ráðherranna bíða eftir þeim fyrir utan fundarherbergið. mbl.is/Gunnhildur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert