„Þetta er bara svo rotið“

Ragnar Þór segir það draga úr honum alla orku að …
Ragnar Þór segir það draga úr honum alla orku að reyna að starfa á vettvangi ASÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það fullreynt af hans hálfu að reyna að vinna á vettvangi Alþýðusambandsins (ASÍ) að uppbyggilegum málum. Hann segir eitraðan kúltúr þrífast innan sambandsins sem aldrei verði hægt að losna við. Það sé nú stjórnar og trúnaðarráðs VR að taka ákvörðun um hvort félagið verði áfram innan vébanda ASÍ.

Ragnar segir hreyfingunni hafa verið stjórnað af ákveðnum aðli í gegnum tíðina og að sá aðall stjórni henni enn. Hann hafi margoft orðið viti að þöggun og svívirðilegri framkomu í garð þeirra sem séu á annarri skoðun en aðallinn. Ekkert hafi breyst innan ASÍ eftir að Drífa Snædal tók við sem forseti sambandsins, enda sé hún hluti af vandamálinu.

„Stóð aldrei til að bjóða mig velkominn“

„Þegar ég kem inn í hreyfinguna á sínum tíma þá upplifi ég ákveðinn kúltúr, skoðanakúgun og annað sem var viðhaldið á þingum Alþýðusambandsins til dæmis,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is, en hann er annar varaforseti sambandsins.

„Þetta er aðallega fólk sem tengist stuðningi við fyrrverandi forseta Alþýðusambandsins og er innan þessara starfsgreinafélaga sem eru þarna í algjöru forsvari,“ útskýrir hann.

Ragnar ritaði grein sem birtist á Vísir.is þar sem hann talaði um skuggahliðar verkalýðshreyfingarinnar, þöggun, skoðanakúgun og grímulaust hatur sem þar fái að viðgangast. Sjálfum hefur honum alltaf fundist hann utanveltu innan ASÍ.

„Ég upplifi það að það stóð aldrei til að bjóða mig velkominn inn í þennan hóp og mun aldrei gera. Ég veit það og hef fundið það mjög lengi að ég verð aldrei samþykktur af þessu fólki eða tekinn í sátt.“

Hann telur þó að þessi andúð gagnvart honum eða VR eigi sér mögulega lengri sögu þar sem VR hafi verið dæmt inn í Alþýðusambandið á sínum tíma. Verslunarmenn hafi í raun alltaf verið jaðarsettir innan sambandsins og það geti fyrrverandi formenn staðfest. „Hvort þetta er frá þeirri tíð og djúp saga á bak við það, þá er þetta það sem ég upplifi.“

Mjög eitraður kúltúr

Í greininni segist hann persónulega hafa upplifað grímulausa heift á opnum og lokuðum fundum innan hreyfingarinnar, oftar en ekki í vitna viðurvist. Árásirnar gagnvart honum séu þó barnaleikur í samanburði við það sem aðrir hafi þurft að þola.

Í samtali við mbl.is nefnir hann sérstaklega að Halldóra Sveinsdóttir þriðji varaforseti ASÍ og formaður Bárunnar hafi gengið mjög harkalega fram gegn honum, Vilhjálmi Birgissyni og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. „Þessu nýja fólki sem hefur viljað brjóta verkalýðshreyfinguna úr ákveðnum farvegi sem hún hefur verið að hjakkast í og aðeins ýta henni upp,“ segir Ragnar.

Halldóra sé þó ekki ein. Um sé að ræða hóp af fólki sem hafi gengið fram með harkalegum hætti. Hann sé ekki stór en á bak við hann sé svo enn fleira fólk.

Ragnar segist einfaldlega vilja vera einlægur og tala um þetta opinskátt. „Þetta er bara svo rotið og það er kominn tími til að ræða þetta með opinberum hætti. Ég er ekki þannig gerður að fara eitthvað kringum hlutina og mála þau fegurri mynd en þau eru. Fólk þarf bara að vita hvernig þetta er, sérstaklega okkar félagsmenn, af því þetta eru okkar fjármunir sem farna þarna inn. Ég mæli allavega ekki með því að starfa innan þessa kúltúrs, sem er mjög eitraður.“

Staðan versnað ef eitthvað er

Ragnar segir ekkert hafa breyst frá því ný forysta tók við innan ASÍ, en Drífa Snædal var kjörin forseti sambandsins árið 2018 og tók þá við af Gylfa Arnbjörnssyni sem hafði gengt embættinu í tíu ár.

„Nei, hún hefur versnað ef eitthvað er. Eða ég veit ekki hvort hún hefur versnað eða hvort ég er orðinn þreyttari á þessu. Ætli það sé ekki frekar það að maður sé orðinn þreyttari á að taka þátt í þessu leikriti.“

Ragnar tekur þó fram að hann beri engan kala til þess fólks sem starfi á vettvangi ASÍ. Það sé hins vegar kominn tími til að tala um hlutina eins og þeir eru. „Ég nenni ekki að vera í kringum þetta fólk í einhverju leikriti eða meðvirknisástandi. Við höfum rætt það á vettvangi stjórnar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvort okkur sé betur borgið utan Alþýðusambandsins eða ekki.“

Hann bendir á að VR sé 36 þúsund manna félag sem vel geti staðið á eigin fótum.

„Það er sama hvað maður maður reynir, ég hef alveg reynt að vera góði gæinn og halda mig á mottunni, en viðhorfið breytist ekkert og það mun aldrei breytast. Í því felst engin reiði eða biturð. Þetta er bara staða sem við þurfum að meta sem stærsta stéttarfélagið innan Alþýðusambandsins, hvort okkur sé betur borgið að eyða orku okkar, kröftum og fjármunum okkar í eitthvað annað.“

Ragnar segir þetta oft verið rætt innan stjórnar VR, ekki bara í hans formannstíð.

Drífa hljóti að vera hluti af vandamálinu 

„Mér finnst eiginlega dapurlegast af öllu að ég kem fram og segi hlutina eins og þeir eru en það er enginn tilbúinn að stíga fram og viðurkenna tortryggnina og viðurkenna hatrið sem þarna viðgengst. Viðurkenna að peningarnir okkar eru velkomnir þarna inn en ekki við sjálf eða skoðanir okkar,“ segir Ragnar.

„Það er bara þannig og ég er bara á þeim tímapunkti að ég nenni ekki að dansa með þessu ástandi lengur í einhverri meðvirkni. Þetta þarf bara að koma upp,“ bætir hann við.

Spurður hvort Drífa Snædal, forseti ASÍ, sé hluti af þessum aðli sem hann talar um, og þá hluti af vandamálinu, segir Ragnar svo vera.

„Hennar hlutverk er að vinna fyrir aðildarfélögin fyrst og fremst. Hún er í umboði stéttarfélagana og á að vinna eftir þeirra stefnum og áherslum, en stundum breytast svolítið áherslurnar og fólk upplifir sig í öfugu hlutverki. Hún hlýtur að vera hluti af þessu vandamáli ef hún nær ekki að sætta ólík sjónarmið innan hreyfingarinnar og vera þetta sameiningartákn heildarinnar út á við. Ef hún nær því ekki, þá hlýtur hún að vera hluti af vandamálinu. Sérstaklega ef hún ýfir þetta upp heldur en hitt.“

Þessi aðall sem þú vísar til, hún er þá hluti af honum?

„Að sjálfsögðu. Það hlýtur að blasa við.“

„Maður er alltaf sami gamli þorparinn“

Ragnar telur að ekki sé hægt að breyta þessum kúltúr sem hefur náð að festa sig í sessi innan hreyfingarinnar.

„Ég sé ekki fyrir mér, að ef það yrðu breytingar á forystu ASÍ, þá er vandamálið alltaf til staðar. Það er alltaf þessi hópur, þó hann fari í minnihluta. Þessi eitraði kúltúr sem við munum aldrei losna við," segir hann.

„Mér finnst ég hafa reynt, ég sagði mig nú á miðstjórn ASÍ á sínum tíma, en það var ákveðið innan stjórnar VR að láta á þetta reyna eftir að að skipulaginu var breytt á síðasta þingi ASÍ, þar sem varaforsetum ASÍ var fjölgað úr tveimur í þrjá til að búa til meiri samráðsvettvang meðal stærstu raddanna innan hreyfingarinnar. En það hefur í sjálfu sér engu breytt. Það er kannski eitt að breyta stjórnkerfinu, en ef viðhorfið breytist ekki þá er ég búinn að gefast upp.“

Hann segir VR hafa reynt að taka þátt í samstarfinu af miklum heiðarleika, en það hafi ekki dugað til „Ég skynja það alltaf betur og betur að það er sama hvað maður reynir, maður er alltaf sami gamli þorparinn.“

Honum hafi alltaf liðið eins og boðflennu, fyrst þegar hann komst til metorða á vettvangi VR og síðan aftur sem formaður VR inn í Alþýðusambandið.

„Okkur í VR hefur tekist gríðarlega vel að vinna saman, bæði skrifstofa og stjórnin. Það er algjörlega frábært samstarf við baklandið okkar. Það eru mjög ólíkar skoðanir og það er tekist á en þetta gengur mjög vel og það er borin virðing fyrir öllum. Það er engin skoðun sem er mikilvægari en önnur. Þar störfum við raunverulega sem ein heild. En að koma síðan í svona eitraðan kúltur, það dregur þetta starf niður á annað plan,“ segir Ragnar. Það dragi úr honum allan kraft að reyna að vinna með fólk en skynja á sama tíma að það vilji ekki hafa hann með.

Situr fundi með bros á vör en óbragð í munni

„Fyrir mér er þetta fullreynt. Það er bara stjórnar og trúnaðarráðs VR að ákveða hvað við viljum gera í framhaldi. Það er ekki mitt að ákveða þetta.

Það er fullreynt hjá mér að vinna á þessum vettvangi að einhverjum uppbyggilegum málum. Ég get alveg setið þarna, ég get alveg setið þessa fundi, eins og maður gerir stundum með bros á vör en óbragð í munni. En næsta skref er í rauninni ræða stöðuna innan stjórnar og trúnaðarráðs.“

Hann segir það samtal verða tekið með opnum og hreinskilnum hætti, en á meðan hans bakland meti stöðuna verði hann þó að breyta sinni nálgun á setuna inni í Alþýðusambandinu. „Ég get alveg setið þarna inni, en þá þarf ég að nálgast þetta með öðrum hætti og mun að sjálfsögðu gera það ef það er vilji félagsins að taka þátt í þessum félagsskap.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert