Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann muni tilnefna Carrin F. Patman í embætti sendiherra landsins á Íslandi.
Patman hefur verið stjórnarformaður almenningssamgangna í Harris-sýslu í Texas, en sýslan er sú þriðja fjölmennasta í Bandaríkjunum og felur í sér stórborgina Houston.
Áður var hún einn eigenda lögfræðistofunnar Bracewell LLP, starfaði þar í þrjá áratugi og flutti ýmis stór dómsmál, að því er segir í tilkynningu á vef Hvíta hússins.
Á vef Politico segir að hún hafi safnað fjárframlögum fyrir Biden í síðustu forsetakosningum.
Ekki er ljóst hvenær tilnefning sendiherrans fer fyrir þingið.